149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:04]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugaverð spurning hjá hv. þingmanni en svarið væri kannski bara: Af hverju ættum við að vilja með lögum koma í veg fyrir það? Við erum með stjórnarskrárvarinn rétt til trúfrelsis, trúleysis eða hvers þess annars sem fólk kýs í þeim efnum. Er það ekki einmitt áskorunin alltaf í frelsinu að jafnvel þegar beiting þess misbýður okkur sjálfum leggjumst við ekki gegn því með lögum? Ég get alveg tekið undir að í trúarlegu samhengi þykir mér þetta ekki fallegt nafn en það er ekki mitt að segja til um það kjósi foreldrar að skíra því. Þó að það móðgaði mig eða misbyði mér á einhvern hátt væri það þeirra réttur eftir sem áður. (Forseti hringir.) Það er þar sem reynir helst á frelsið, þegar beiting þess misbýður okkur sjálfum.