149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:08]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka 1. flutningsmanni þessa máls, hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, fyrir ágæta yfirferð. Eins og hann fór yfir í sínu máli kemur þetta mál nú fram í þriðja sinn. Það styður málflutning þeirra sem vilja ekki láta mál lifa á milli þinga að þetta mál hefur þróast og batnað í meðförum þingsins milli skipta. Ég verð að segja að oft hafa orðið hér alveg prýðisgóðar umræður um þetta mál sem snertir okkur öll af því að það sem aðgreinir okkur frá öðru fólki er oft nafnið okkar sem veitir sérstöðu. Við getum aðgreint okkur með því.

Það að leggja fram þessar róttæku breytingar er kannski tímanna tákn. Við höfum búið við reglur um þennan málaflokk síðan 1914 og líklega engu breytt þar um sem segir okkur að við þurfum að fara að stíga einhver skref í þessum efnum. Þjóðfélagið breytist, það verða breytingar í viðhorfum og ýmsu öðru. Hér er orðið alþjóðlegt samfélag og ég hef orðið vitni að því að útlendingar sem flutt hafa til landsins hafa orðið að breyta nafni sínu. Það hefur verið mörgum þeirra afskaplega erfitt. Það er þungbært að þurfa að leggja til hliðar nafnið sem maður hefur einkennt sig með frá fæðingu. Ég held að við hljótum öll að þurfa að skoða það og það er bara jákvætt að við gerum það.

Þá vil ég einnig nefna það sem snýr að transfólki. Mörgum einstaklingum sem hafa farið í gegnum kynleiðréttingarferli hefur þótt erfitt að geta ekki tekið upp nafn þegar þeir eru tilbúnir að breyta því og hvernig það hefur virkað. Ég held að það sé klárlega nokkuð sem við þurfum að taka á í breyttu samfélagi með breyttum viðhorfum og breyttum tímum.

Hefðin er rík. Nafnahefðin sem við höfum haft er gríðarlega skemmtileg, ég verð bara að segja það, að kenna okkur við foreldri með því að vera -dóttir eða -son. Við förum í önnur samfélög þar sem ekki er hægt að tala um veður af því að þar er bara endalaus þurrkur og blíða en þá getum við þó alltaf byrjað að tala um nöfnin okkar. Það getur verið upphafið að skemmtilegu samtali sem er bara gott.

Hefðirnar þróast. Ég hef svo sem engar áhyggjur af því að þar á þurfi að verða einhver viðsnúningur. Mig langar að halda í hefðirnar og ég vona að við séum fleiri um það en þar með sníðum við ekkert öllum þann þrönga stakk að þurfa að halda sig við það ef það hentar ekki.

Sú sem hér stendur ber afskaplega íslenskt nafn og er af því stolt og ánægð. Ég er alnafna ömmu minnar og finnst það skemmtilegt en vissulega hef ég oft velt fyrir mér því að taka upp eitthvert annað nafn. Hvernig gerðu menn það áður fyrr? Það var kennt við eitthvað í fasi viðkomandi, háttalag, eitthvað úr náttúrunni eða umhverfinu. Ég hef áður sagt að þá lægi einhvern veginn beinast við að sú sem hér stendur héti Þverdal af ýmsum ástæðum sem má skýra á mismunandi hátt. En það er nú bara sagt til gamans.

Í lokin langar mig að segja ykkur sögu af því að barn kom heim úr skóla og var svo gáttað á nafninu á einum samnemanda sínum. Og hvert er það? Ja, hann heitir eitthvað Guð. Hann heitir Guðmundur. Þetta þykir mér og mínu fólki mjög venjulegt nafn en greinilega finnst það ekki öllum. Við erum að þróast og breytast og þurfum að mæta því einhvern veginn. Ég hlakka til að við tökum þessi mál fyrir og ræðum þau af því að við þurfum að taka þátt í breytingunum og þora að stíga skrefin sem þarf að stíga. Það er bara jákvætt.