149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:40]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að vera sá eini sem heitir Hjálmar Bogi á Íslandi, það er mjög gaman og ég bið ykkur um að breyta því ekki. Bara til gamans, systir mín ætlaði að skíra son sinn Hlyn Inga Viðarsson en hætti við þegar hún sá skammstöfunina, HIV. Við viljum ekki hafa þá skammstöfun í skóla. Hún breytti þess vegna yfir í Hlyn Snæ Viðarsson.

En þingmaðurinn svaraði ekki spurningunni um hver mæti þetta. Samkvæmt íslenskri menningu er mjög fallegt að heita Hreinn Sveinn eða Ljótur Drengur. Hvenær grípum við inn í? Um það snýst umræðan. Hvenær grípum við inn í hvað er innan einhverra velsæmismarka, hvaða nafn einstaklingurinn fær?

En svo því sé haldið til haga styð ég að þetta verði gert eins og hér er lagt upp með hjá þm. Þorsteini Víglundssyni.