149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:16]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var full þörf á að benda á hvað við værum að ræða um. Af því að hv. þingmanni er svo mikið niðri fyrir að svara mér og er kominn út í allt annað get ég svo sem alveg farið að ræða einstaklingsfrelsi og annað frelsi, vinstri og hægri. Auðvitað er vinstri svakalegt orð. Það er komið til vegna þess að vinstri menn voru áður sósíalistar og sósíalisminn hefur náttúrlega verið hættulegur og er hættulegur, jafn hættulegur núna og áður.

Ég get líka sagt að einstaklingsfrelsið er mikilvægt og viðskiptafrelsið líka. Það hefur auðvitað enginn annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn barist almennilega fyrir þessum frelsismálum. Ég veit að hv. þingmanni og mörgum Pírötum er mjög misboðið þegar maður tengir þá við vinstrið en samt hef ég tekið eftir því að þeir sem hafa kvarnast úr þessum Pírataflokki eru allir í Sósíalistaflokknum í dag ef það er eitthvað að marka netið. Ég held að meginhugmyndafræði Pírata sé til vinstri og það er ekki góð þróun.

En vissulega eru til mörg og hafa verið hér mörg frjálslyndismál hjá einstaka Pírötum. Ég tek fram að þegar ég tók dæmi áðan í umræðunni um menn sem væru á móti hinu og þessu var ég ekki að tala sérstaklega um hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, heldur sagði bara að margir menn sem væru fylgjandi þessu hefðu verið á móti þessum málum.

Af því að hv. þingmaður talaði um vímuefnaneyslu og refsingar vímuefnaneytenda var ég byrjaður að berjast gegn því áður en hv. þingmaður fæddist, bara svo það sé ljóst. Það er allt til á prenti. Hafi hann verið fæddur var hann mjög ungur.