149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kann að vera að ég og hv. þingmaður skiljum ekki orðið tvísköttun með sama hætti. Við skulum þá bara efna til þeirrar umræðu, að vísu sakna ég þess að hv. þingmaður er búinn að yfirgefa okkur í efnahags- og viðskiptanefnd. Það hefði verið gaman að eiga orðastað um þetta og velta fyrir sér hvað er tvísköttun. En það er hins vegar alveg kórrétt sem hv. þingmaður vekur hér athygli á, að tvísköttun viðgengst víða í samfélaginu. Þegar einstaklingur tekur t.d. þá ákvörðun að koma sér upp íbúð er auðvitað íbúðin skattlögð, maður er að borga virðisaukaskatt og alls konar skatta og gjöld, síðan þegar maður gefur íbúðina upp til skatts og leigir hana út (Forseti hringir.) er maður farinn að borga fjármagnstekjuskatt ofan á verðmæti íbúðarinnar sem er að stórum hluta (Forseti hringir.) með innbyggðri skattlagningu.