149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

heræfingar NATO.

[10:52]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Á fundi utanríkismálanefndar 7. febrúar sl. var heræfingin Trident Juncture kynnt fyrir utanríkismálanefnd og var fjallað um hina ýmsu þætti æfingarinnar. Meðal annars var talað um að einhverjir hermenn yrðu fluttir með þyrlu frá skipum á hryðjuverkaæfingu annars vegar og hins vegar yrðu um 200 hermenn í vetrarþjálfun í óbyggðum.

Í kynningu sem við fengum í nefndinni í gær kvað við annan tón. Þar var m.a. talað um landgöngu með um 30 landgönguprömmum sem gætu borið í kringum 6.000 hermenn; ég veit ekki hvort þeir verða fullir, þ.e. prammarnir. Búist er við þúsundum hermanna í höfuðborginni í landvistarleyfi sem verða þá innan um óeinkennisklædda herlögreglu. Meðan flest af því sem var kynnt í vor virðist ætla að standast, t.d. um netöryggisæfingar og þess háttar, er alveg augljóst að sumt virðist hafa aukist að umfangi á undanförnum mánuðum.

Því langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann hafi samþykkt þessa útvíkkun á umfangi heræfingarinnar. Og sérstaklega: Hefur þetta verið borið undir ríkisstjórn?

Ég er ekki á þeirri skoðun að við eigum að láta sem hernaður varði okkur ekki og auðvitað eigum við að tryggja varnir landsins. Heræfingar eru illu heilli hluti af því, það er m.a. hluti af því að taka þátt í NATO. Það getur líka gerst að plön breytist en það er mjög skrýtið ef áætlanir breytast svona verulega og mér finnst mikilvægt að þinginu sé gert ljóst með hvaða hætti ákvarðanatökur fara fram í þessum málaflokki.

Hvernig var þetta ákveðið? Hverjir komu að ákvörðuninni? Getum við átt von á frekari breytingum?