149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

framkvæmdir við Reykjanesbraut.

[10:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég hljóma kannski eins og biluð grammófónplata í ræðustól vegna þess að fyrir tæpu ári talaði ég um nákvæmlega sama hlutinn, Reykjanesbraut, við hæstv. samgönguráðherra. Reykjanesbraut er einn slysamesti kafli landsins og við þökkum fyrir að komin eru mislæg gatnamót við Vellina, við Straumsvík, en bæjarstjórn Hafnarfjarðar er enn að álykta og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa hérna:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar krefst þess að ráðherrar og alþingismenn sjái til þess að í nýrri og endurskoðaðri vegáætlun sem lögð verður fram nú á haustþingi, verði fjármagn tryggt til að ráðast í þessar brýnu framkvæmdir á Reykjanesbrautinni í gegnum Hafnarfjörð.

Mikil fjölgun ferðamanna á undanförnum árum sem fara í gegnum Leifsstöð er fordæmalaus. Sú staðreynd ásamt mikilli fjölgun íbúa á Reykjanesi og í Hafnarfirði hefur leitt til þess að umferð um Reykjanesbraut hefur margfaldast. Þetta álag á einfalda brautina í gegnum Hafnarfjörð hefur leitt til mikilla umferðartafa á þeim kafla og sífellt fleiri slysa. Er því ljóst að ekki er hægt að bíða lengur með að ráðast í tvöföldun hennar á þeim kafla.“

Alkunna er alvarlegt ástand vegarkaflans, slys eru þar tíð og umferðarþungi gríðarlegur. Og þá spyr ég ráðherra: Hvernig á að leysa þennan kafla, gatnamótin við Kaplakrika og gatnamótin við Lækjargötu? Einnig langar mig að vita hvernig eigi að leysa vandann þó að búið sé að tvöfalda, þann vanda að þarna stíflast allt? Það er algjörlega stíflað á hverjum einasta morgni, frá Straumsvík og inn úr, eins og við vitum. Búið er að taka af dagskrá ofanbyggðaveg sem var á dagskrá fyrir 30 árum þegar ég flutti í Hafnarfjörð en hann er farinn. Það virðist engin lausn vera á því að leysa þetta og ég spyr samgönguráðherra hvort hann sé með einhverja frábæra lausn á þessu vandamáli.