149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[11:30]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu skýrsla um það hvernig auka megi traust á stjórnsýslu og stjórnmálum. Ég ætla aldrei þessu vant að vera frekar neikvæður í þessu málefni. Ég held að traust og trú á stjórnmálum muni ekkert aukast með fleiri reglum, með einhverjum óháðum aðilum að úrskurða um hvort þingmenn eða stjórnmálamenn hafi farið eftir einhverjum siðareglum. Ég held að við bætum ekki traust til okkar, stjórnmálamanna, nema við sjálf gerum eitthvað, hvert og eitt okkar. Í mínum huga hefur enga þýðingu að setja margar reglur á blað, flestar auðvitað óskýrar, hægt að snúa út úr og túlka út og suður.

Ég hef oft velt fyrir mér af hverju traust á stjórnmálamönnum og stjórnmálum hefur minnkað raunverulega alls staðar, ekki bara hér á landi, en samt hafa menn lengi verið að auka gagnsæi og veita meiri upplýsingar. Ég hef oft velt fyrir mér öllum þessum upplýsingum sem fólk fær, öllum þessum reglum: Getur verið að þær dragi einfaldlega úr trausti á þingmönnum? Þeir verða meira í umræðunni, það er hægt að fá svo miklar upplýsingar sem er hreinlega snúið út úr. Hver og einn túlkar þær eftir sínu nefi. Umræða um stjórnmálin eykst, tortryggnin eykst í kringum þetta allt saman með öllum samfélagsmiðlunum og traustið fer sífellt neðar. Ég held að traustið muni ekki fara upp nema við sjálf stöndum okkur betur. Allar þessar reglur hafa enga þýðingu í mínum huga. Hins vegar er ágætt að ræða hér um siðferði, hvernig við eigum að haga okkur.

Gott og vel, ræðum það hvað telst eðlilegt. Hvað er eðlilegt að segja hér í salnum? Tökum þá umræðu.

Ég hef ekkert á móti því að öll hagsmunaskráning liggi frammi, það er mjög mikilvægt að fólk viti hvaða og hvernig hagsmuni við höfum, en með því að fara að búa til flóknar reglur og fela svo óháðu fólki, jafnvel uppi í háskóla, að vera einhvers konar úrskurðaraðili — menn eru með tillögur um að einhver viðurlög verði að vera — þá fyrst held ég að við séum komin í óefni. Þá mun traust og trú á okkur einfaldlega minnka enn meira — og ekki megum við við því.

Ég held að umræðan sé góð en ég held að við eigum öll að líta í eigin barm: Hvað getum við gert betur?