149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:37]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er bara skýrt: Nei, þvert á móti. Ég hygg að þegar menn líta yfir sögu míns flokks sjái þeir að minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur einmitt verið helsti talsmaður þess að byggja hér undir frjáls félagasamtök og góðgerðarsamtök og gera þeim kleift að sinna ýmsum mannúðarmálum. Það er alveg rétt að á hverjum einasta degi er verið að vinna í sjálfstæðum fyrirtækjum, í félagasamtökum á sviði heilbrigðisþjónustu, alveg ótrúlegt og óeigingjarnt starf. Það er hugsjónin sem drífur menn áfram.

Ég þekki það sjálfur vegna þess að ég tengist slíku starfi fjölskylduböndum, en látum það liggja á milli hluta. Við skulum átta okkur á einu, að hugsjónin, það að byggja eitthvað upp, er auðvitað drifkraftur með sama hætti og hagnaðarvonin. Ef menn halda að hagnaðardrifinn atvinnurekstur í sjávarútvegi, landbúnaði eða iðnaði sé það eina eru menn á villigötum. Ég hef ekki hitt neinn sem stundar hér atvinnurekstur sem hefur það eingöngu að markmiði að græða voða mikið. Sjálfstæði atvinnurekandinn, maðurinn sem leggur allt sitt undir og sinnar fjölskyldu, er ekki bara drifinn áfram af einhverjum hugsanlegum hagnaði langt fram í framtíð, þetta er líka hugsjón, gera eitthvað, búa eitthvað til, gera eitthvað gott fyrir samfélagið, skapa störf, skapa ný verðmæti, ekki bara fyrir sjálfan sig heldur líka fyrir samfélögin og starfsmennina.

Guð minn almáttugur, þegar menn takast á við verkefni og eru ekki drifnir áfram eingöngu af hagnaðarvoninni er það gott. (Forseti hringir.) Ég held að það sé akkúrat það sem er að gerast þegar frjálst framtak fær að blómstra.