149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:55]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðuna. Það er ljóst að við deilum ekki alveg sömu sýn á rekstrarform í heilbrigðisþjónustu. Ég vil þó segja það eina ferðina enn — sem ég hef sennilega sagt, eins og krakkarnir mundu segja, „tæplega milljón sinnum“ — í þessari umræðu að ég hef ekkert á móti heilbrigðisþjónustu í rekstri einkaaðila og geri mér fulla grein fulla grein fyrir því hversu stór hluti það er af íslenska heilbrigðiskerfinu. Það er líklega um fjórðungur og hefur verið það nokkuð stabílt í mjög langan tíma.

Þingmanninum ætti að vera kunnugt um þær rannsóknir sem við vitum um úti í heimi. Alls staðar þar sem gerðar hafa verið alvörurannsóknir á því hvaða heilbrigðiskerfi eru skilvirkust, skila bestum árangri, bæði fyrir samfélögin og fyrir notendurna, vill svo til að það eru opinberu heilbrigðiskerfin. Það er bara þannig. Það kann vel að vera að hægt sé að sýna fram á það í einhverjum tilfellum að tilteknir þættir í heilbrigðisþjónustu séu betur komnir á hendi einkaaðila. En þegar allt er tekið saman þá kemur þetta út úr rannsókn eftir rannsókn. Það er því ekki í einhverju vakúmi sem þessi umræða skapast, um það hvaða rekstrarform sé best.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af að því hann talar mikið um að það sé mjög mikilvægt að menn geti haft ávinning og ábata af rekstri sínum: Hvað finnst hv. þingmanni þá að ætti að vera eðlilegt að reikna háa arðsemiskröfu inn í samninga? Vill þingmaðurinn nefna einhverja prósentu í því máli? Telur hann þá að eftirspurn sé eftir því í samfélaginu að slíkt sé gert?