149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[15:19]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Hann svaraði að vísu ekki spurningu minni en það er allt í lagi. Ég endurtek hana þá bara, um það þegar ákveðið var að setja upp einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þá voru miklu fleiri lysthafendur en fengu. Eftir að það var gert eru hinar tvær stöðvarnar sem voru í einkarekstri komnar í „non-profit“ módel. Eins og hefur komið fram hérna í umræðunni alla vega er ekki að sjá að þessi aðgerð þáverandi heilbrigðisráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar hafi gert heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu verri. Síður en svo. Ég held að menn geti alveg verið sammála um það. En hann setti samt þetta skilyrði í samningana við þessa aðila.

Þá komum við kannski að því sem hv. þingmaður kom inn á í sínu svari áðan og sem ég ætla að leyfa mér að túlka að þingmaðurinn hafi sagt, að hann leggi mikið upp úr því að ríkið sé góður kaupandi, meti þá samninga vel og vandlega sem það gerir við rekstraraðilana, leggi vinnu í að skoða hvað það er að kaupa og hvað það þarf að kaupa. Þarna held ég að ég og hv. þingmaður séum algerlega sammála, þetta hefur skort. Það er a.m.k. hluti af vandanum í samningagerð ríkisins við einkaaðila í heilbrigðisþjónustu að ríkið hefur ekki haft nægilega góða sýn og nægilega góða (Forseti hringir.) samninga til þess að geta fengið það út úr þjónustunni sem það þyrfti.