149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[15:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir þetta andsvar. Ég sagði reyndar ekki í ræðu minni að í frumvarpinu væri grautað saman ólíkum hlutum, ég sagði að það hefði framsögumaður gert í ræðu sinni. Það er dálítið annað mál.

Af því að hv. þingmaður nefndi SÁÁ get ég upplýst hann um að í dag borgar ríkið SÁÁ samkvæmt þjónustusamningi um 1.500 meðferðir á ári. 2.200 sjúklingar fara í gegnum SÁÁ á ári hverju. Það segir að sjálfsaflafé SÁÁ er notað til þess að vinna á þeim alvarlega biðlista sem þar er, í staðinn fyrir að nota það t.d. í uppbyggingu, eins og menn mundu helst kjósa.

Það vill svo til að við hittum nokkra fulltrúa SÁÁ um daginn þar sem þetta kom fram. Þar sögðu þeir: Við treystum okkur til þess að taka inn 2.700 sjúklinga á ári ef við fáum til þess fé, en það liggur ekki á lausu. Það er enn verið að borga með þessum 1.500. En SÁÁ sendir, af skörungsskap, fórnarlund og hugsjón, 2.200 manns í gegnum meðferð á ári hverju.

Það er líka hægt að benda á að SÁÁ stendur núna frammi fyrir því að þurfa jafnvel að loka göngudeild sinni á Akureyri. Ekki er búið að gera við þá þjónustusamning um göngudeildina á höfuðborgarsvæðinu og það er mikil tregða gagnvart því samkvæmt því sem þeir segja sjálfir. Þannig að ég segi aftur: Að gera Hugarafli og Karitas ómögulegt að starfa, að gera ekki nýja þjónustusamninga við SÁÁ, kalla ég að hundelta þessi samtök sem stofnað er til af hugsjón og fórnarlund og áhuga fyrir þjóðfélaginu. Það er ekki góð pólitík, hv. þingmaður. Alls ekki.