149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að bregðast við orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar og þakka honum föðurlegar skýringar hans á því hvernig þetta kerfi hefur alltaf virkað. Það að þetta hafi alltaf verið svona gerir það ekkert endilega að góðu kerfi. Það er ágætt að hafa það í huga að samgönguáætlun telur fleiri tugi milljarða í áformum stjórnvalda um samgönguuppbyggingu til næstu ára, um allt land. Þetta er eitthvað sem skiptir okkur öll miklu máli, eitthvað sem skiptir kjósendur okkar allra gríðarlega miklu máli, eðlilega. Og eðlilega erum við strax krafin um viðbrögð við þessum áformum stjórnvalda sem við þurfum einhvern veginn að reyna að púsla saman úr fréttaflutningi hinna ýmsu miðla þar sem m.a. stjórnarþingmenn eru í viðhafnarviðtölum að tjá sig um hvað sé gott eða slæmt í áætlun sem við höfum ekki fengið að sjá.

Við vinnum fjármálaáætlun t.d. ekki með þessum hætti. Við vinnum fjárlög ekki með þessum hætti. Það er bara fullkomlega eðlilegt að þinginu sé sýnd sú virðing að þegar plagg af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir fer í almenna umræðu hafi allir þingmenn fengið tækifæri til að kynna sér innihald þess þannig að þeir séu viðræðuhæfir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)