149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek líka undir að það er ekki gott þegar upplýsingar sem ætlað er að halda trúnað um fara til fjölmiðla. Við erum búin að upplifa það í nefndastörfum og nú upplifum við það í tengslum við samgönguáætlun. Það er meira en óheppilegt, það er eiginlega ómögulegt að þetta sé svona eins og það er. Við þessu verðum við að bregðast og gera einhverja bragarbót á.

Hv. þm. Logi Einarsson nefndi landshlutafundi. Ég er búin að sitja landshlutafundi bæði fyrir austan og norðan og tel að samþingsmaður hv. þingmanns geti vottað það, þar sem við sátum saman í pallborði og vorum spurð spjörunum úr, að við sögðum að áætlunin væri ekki birt, hún væri enn til umfjöllunar í þingflokkum stjórnarmeirihlutans og því gætum við ekki svarað. Það er auðvitað hundleiðinlegt þegar fólk er búið að sjá eitthvað á prenti.

Bara til að hafa það sagt höfum við ekki, þrátt fyrir að hafa ákveðna vitneskju, sagt neitt sem okkur var ekki ætlað að segja vegna þess að málin eru ekki komin í gegnum þingflokkana enn þá. Þau eru þar enn til umfjöllunar.