149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

rafrettur og rafrettuvökvi.

[15:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Mér er kunnugt um þessar áhyggjur og þótt ég hafi ekki enn þá séð bréfið sem hv. þingmaður nefnir frá Félagi atvinnurekenda hefur verið haft samband við mig með óformlegum hætti og svo hef ég líka átt fund með einum sérstökum áhugamanni um þessi mál, um inntak og innihald reglugerðarinnar og sérstaklega þann þátt sem lýtur að leyfisgjaldinu fyrir hvert og eitt strikamerki, eins og ég skil það. Þá er upphæðin 75.000 kr. sem er náttúrlega mjög stór upphæð fyrir verslun sem er með mikið úrval, eins og ég skil það.

Markmið með þessari tilkynningarskyldu er að tryggja öryggi vörunnar en hingað til hefur ekki verið haft neitt eftirlit með rafrettum og áfyllingum í þær. Við hv. þingmaður vitum að reglugerðinni er ætlað að bæta úr þeirri stöðu. Hins vegar er það þannig að eins og málum er háttað akkúrat núna eru gríðarlega margir smásöluaðilar sem selja þessa vöru. Undir þeim kringumstæðum þegar markaðurinn væri orðinn þroskaður væri e.t.v. um að ræða einhvers konar heildsölu sem myndi þá flytja inn vöruna og greiða þetta gjald, þegar markaðurinn hefur náð að setjast betur til, getum við sagt, þegar lögin eru farin að taka gildi o.s.frv.

Reglugerðin er til stöðugrar skoðunar og við erum að skoða þær athugasemdir sem eru að koma, m.a. þær sem hv. þingmaður vísar til. Mér er ekki kunnugt um að það hafi farið fram tiltekin eða sérstök greiningarvinna en hins vegar hafa farið fram samskipti við þá aðila sem með eftirlitshlutverkið eiga að fara og á þeim endanum þykir gjaldið lágt vegna þess að þetta útheimtir náttúrlega vinnu og mannskap á hverjum degi. (Forseti hringir.) Það eru tvær hliðar á þessu í raun.