149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

landbúnaðarafurðir.

[16:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem er gagnleg, góð og uppbyggjandi í senn. Það er alveg rétt að þarna geta legið töluverðir möguleikar og þessi þáttur málsins hefur raunar komið til umræðu hjá starfshópi um endurskoðun búvörusamninga sem hefur í kjölfarið á úttekt KPMG á afurðastöðvunum í sauðfjárslátrun komið fram með skýrslu sem vakið hefur allnokkra umræðu. Það er alveg ljóst að þarna eru ákveðin tækifæri fyrir hendi. Ég vil þó minnast á að eitt af þeim atriðum sem starfshópurinn hefur nefnt er að kanna leiðir til að auka sveigjanleika í matvælalöggjöfinni til að skjóta styrkari stoðum undir rekstur smærri eininga, þjónustu- og handverkssláturhúsa eins og kallað er. Það var sett ný reglugerð árið 2016 sem átti að liðka til fyrir þessu vegna þess að þá var þessi umræða uppi. En í kjölfar reglugerðarsetningarinnar sem tók gildi í október árið 2016 hafa ekki borist neinar ábendingar eða athugasemdir um einhverjar breytingar á reglugerð. Það virðist e.t.v. þurfa eitthvað til að snúa þetta betur í gang. Vonandi er umræðan sem þarna er að hefjast liður í því að vekja upp frekari umræðu um þetta.

Það er alveg ljóst að það eru ýmis verkefni í þessum sláturhúsageira sem betur mega fara. Það er fullt af tækifærum þarna. Ég veit af vilja bænda til þess að nýta það. Kannski þurfum við á stjórnarhlutanum, framkvæmdarvaldið, að breyta einhverjum þáttum varðandi svigrúm þessara aðila til að taka stærri stöðu á þessum vettvangi. Ég kem kannski að því í síðara svari (Forseti hringir.) mínu hvaða möguleikar geta verið fyrir hendi.