149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki ég sem settist allt í einu niður og hugsaði: Það þarf að minnka flækjustig og það þarf að hafa skýrari regluverk eða hvernig við eigum að orða það í þessum málum. Ég vitnaði í nokkrar skýrslur hér í máli mínu, þær er að finna í greinargerðinni. Ein þeirra var unnin fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið árið 2016. Nú man ég þetta ekki svo gjörla, en er ekki rétt að Framsóknarflokkurinn hafi verið með velferðarráðuneytið árið 2016? Það er eins og mig minni það.

Í skýrslunni eru gerðar tillögur um umfangsmiklar breytingar á skipulagi og stjórnsýslu útlendinga- og innflytjendamála. Meðal tillagnanna er að komið verði á fót stofnun útlendinga- og innflytjendamála til að, nú vitna ég beint í skýrsluna, virðulegur forseti, „samhæfa og samstilla aðgerðir til úrlausnar margra verkefna sem hafa mikið flækjustig, geta í senn verið fyrirsjáanleg og ófyrirsjáanleg og kalla á skjótar en um leið vandaðar ákvarðanir í málefnum einstaklinga og fjölskyldna“. Þetta er úr umræddri skýrslu sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið árið 2016. Þá var Fjölmenningarsetur að sinna sínu góða starfi.

Þannig að já, þörfin virðist vera fyrir hendi til að draga úr flækjustiginu. Fyrir umrædd ráðuneyti var sérstaklega lagt til að komið yrði á fót ákveðinni stofnun til að draga úr henni. Hér er í raun og veru verið að vinna áfram með þá hugmynd.

Aftur spurði hv. þingmaður um ýmislegt sem ég taldi mig hafa svarað. Þarf að breyta lögum? Já, það segir í greinargerðinni. Kannski þarf að breyta lögum um Fjölmenningarsetur þannig að það taki yfir verkefnin. Flyst starfsemi þaðan? Ég veit það hreinlega ekki. Mér finnst mikilvægt að standa vörð um þau störf sem þar eru. Kannski flyst starfsemi þangað.

Á endanum er það nefndarinnar og svo ráðherra að finna út hvernig þessum málum verður best fyrir komið (Forseti hringir.) og um leið að standa vörð um þá starfsemi sem nú er fyrir hendi eins og skilmerkilega kemur fram í máli mínu og greinargerðinni.