149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar ég tók sæti á þingi árið 2013 hafði þáverandi þingmaður, Birgitta Jónsdóttir, þó nokkuð oft stungið upp á því að samkomulög sem hér eru gerð væru skrifleg. Ástæðan var sú að sitt sýnist hverjum um hvað samkomulög hafi verið, skilningur og minni fólks er misjafnt og þá er stutt í svikabrigsl með tilheyrandi leiðindum. Lausnin er augljós og einföld en hún er sú að skrifa niður ákvarðanir og samþykki fyrir þeim þannig að pólitískir andstæðingar þurfi ekki að treysta hver á annan til að muna og skilja hlutina á sama hátt sem þeim hentar illa að muna og skilja á sama hátt. Í því ljósi hefur þingflokkur Pírata sent bréf til forseta ásamt afriti til þingflokksformanna en bréfið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í umræðum á fundum forsætisnefndar og fundum þingflokksformanna með forseta hefur í fjölmörg skipti verið gengið að samþykki þingflokksformanna eða þingflokka vísu með tilvísan í hefðir þar um. Nýlegt dæmi er ætlað samþykki varðandi skertan umræðutíma um skýrslur ráðherra.

Þingflokkur Pírata samþykkti eftirfarandi ályktun á þingflokksfundi mánudaginn 24. september 2019:

„Samþykki þingflokks og þingflokksformanns Pírata við tillögu forseta Alþingis eru veitt skriflega en liggja að öðrum kosti ekki fyrir.““

Ofangreind ályktun þingflokks Pírata tilkynnist forseta Alþingis hér með og undir þetta skrifar starfandi þingflokksformaður Pírata, hv. þm. Halldóra Mogensen.

Svo það sé alveg skýrt er þetta ekki tillaga til umræðu heldur ákvörðun sem þingflokkur Pírata hefur tekið. Við ráðum því ekki hvernig hlutir fara fram hér en við ráðum því hins vegar sjálf hvað við samþykkjum. Þingflokkur Pírata ætlar ekki framar að sitja undir predikunum annarra um það hvað hann eigi að hafa samþykkt eða hvenær. Það verður einfaldlega að liggja fyrir skriflega ef samþykkið er til staðar. Að öðrum kosti má forseti vita að samþykki liggur ekki fyrir og að vel megi vera að þingflokkurinn geri athugasemdir við eða mótmæli ákvörðunum sem forseti telur sig hafa munnlegt samþykki fyrir.

Því er hér með komið á framfæri.