149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Gera þingmenn sér almennt grein fyrir því að 30% öryrkja á Íslandi með 75% örorkumat eða meira eru ungt fólk innan við fertugt? Þetta hlutfall hér á landi er tvöfalt hærra en er á hinum Norðurlöndunum þar sem hlutfallið er 14–16%.

Nýgengi öryrkja á Íslandi með yfir 75% örorkumat er núna 1.200–1.800 á ári. Árið 2016 var nýgengi örorku í fyrsta skipti meira en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaði. Nýgengið er mest, fjölgunin er mest, meðal ungra karla á aldrinum 20–30 ára vegna geðraskana og ungra kvenna á aldrinum 30–40 ára vegna stoðkerfisvandamála.

Ég er ekki að tala um þetta sem efnahagslegt vandamál þó að fyrirsjáanlegt sé samkvæmt nýjum tölum frá KPMG sem kynntar voru í fjárlaganefnd um daginn að öryrkjar verði með sama áframhaldi orðnir 23.000 eða svo eftir tíu ár og kostnaður við það tvöfaldist. Nei, ég er að tala um þetta út frá mannlegu sjónarhorni. Það er eitthvað að í kerfinu sem er hvetjandi til skráningar inn á örorku, samanborið við það kerfi sem ríkir á hinum Norðurlöndunum, og er letjandi fyrir fólk til að koma til baka. Það er eitthvað í kerfinu sem við verðum að laga, fólksins sjálfs vegna, svo við séum ekki að dæma ungt fólk, unga menn og ungar konur, til varanlegrar og hugsanlega ævilangrar örorku. Við verðum að laga kerfið.