149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:24]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, fyrir þarfa umræðu. Staðan er grafalvarleg eins og fram hefur komið í dag. Undanfarin misseri hefur umræða um þau mál sem betur fer aukist. Það kemur því miður ekki til af góðu þar sem dauðsföllum af völdum ofnotkunar fíkniefna á sjúkdómum tengdum fíkn hefur fjölgað. Fram til ársins 2016 dóu úr þeim hópi sem hefur komið í meðferðarfasann 15 manns á ári, 39 ára og yngri, vegna ofneyslu fíkniefna og tengdra sjúkdóma. Árin 2016 og 2017 fór talan upp í 25, en nú er staðan þannig að um mitt ár 2018 hafa 24 einstaklingar látist. Það er vissulega vísbending um ástandið og á hvaða leið við erum.

Því miður hefur neysla á kókaíni og morfíni aukist og þar af leiðandi fleiri sem óska eftir aðstoð. Sem betur fer leita einstaklingar sér aðstoðar, en aukinni neyslu fylgja alvarlegar afleiðingar, fleiri dauðsföll fólks með fíknisjúkdóma. Þegar einstaklingur er á biðlista getur ýmislegt gerst og mikilvægt að tryggja möguleika á hjálp í bráðafasanum. Þar höfum við tækifæri til að forða fjölskyldum frá miklum harmi.

Ég fagna þeim skrefum sem stigin hafa verið og vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þær aðgerðir sem komnar eru í farveg og bind vonir við að þær beri árangur. Í ljósi þess að aðalatriðið er að opið sé fyrir inngrip þegar ástandið er hvað alvarlegast hjá einstaklingum með fíknisjúkdóma og mikilvægt að dyr séu opnar langar mig að spyrja ráðherra hvort möguleiki sé á að SÁÁ reki öfluga göngudeild sem fólk hefur greiðan aðgang að. Hjá SÁÁ er húsnæði, aðstæður og þekking til staðar og hægt að bjóða upp á meiri þjónustu og þjónusta það sem nú blasir við.