149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[16:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. „Það eina sem skiptir í rauninni virkilegu máli er að vera góður við börn.“ Svo mælti hin vísa og hagyrta Vigdís Grímsdóttir. Held ég að með þessari þingsályktunartillögu séum við að fanga svolítið kjarnann í því til hvers við erum hérna. Þetta er einhvern veginn svo rétt. Það eina sem skiptir raunverulegu máli er að vera góður við börn. Börnin eru nútíminn og börnin eru framtíðin. Börnin eru fræið okkar, jurtin okkar og akurinn allur. Ef við ræktum þau ekki sem skyldi, ef við hlúum ekki almennilega að þeim og gætum ekki að því að þau blómstri, þá er voðinn vís.

Þess vegna var ég svo innilega ánægð þegar hv. þm. Oddný Harðardóttir viðraði fyrst hugmynd sína um þessa þingsályktunartillögu sem hún mælti fyrir í dag um aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna af því að þau eru nútíminn og framtíðin okkar allra, þau eru blómin okkar og akurinn.

Í þessari þingsályktunartillögu má sjá magnaða áætlun í 49 ígrunduðum liðum. Sumir liðirnir eru svo sjálfsagðir að við getum öll verið sammála um að sæti furðu að séu ekki nú þegar í framkvæmd. Aðrir liðir eru smærri, varða afmarkaða þætti en ekki minna sjálfsagða. Öll varða þessi atriði djúpa hagsmuni barna og eru til þess að auka jafnræði á meðal barna á Íslandi, gæta þeirra ýtrustu hagsmuna og til þess að veita þeim þá vernd sem okkur ber skylda til þess að veita, bæði okkur sem einstaklingum, okkur sem foreldrum, en líka okkur sem stjórnvöldum. Það er í lögum landsins að við verðum að veita þeim vernd.

Einhverra hluta vegna þá er þetta ekki hávær hópur. Þetta eru ekki háværir hagsmunaaðilar, börnin okkar. Þess vegna færast þau oft aftar í röðina þegar kemur að úthlutun fjármuna í ákveðna málaflokka. Það þarf að auka við fjárhagslegan, heilbrigðislegan og samfélagslegan stuðning við börnin okkar og við getum það svo vel.

Þetta eru 49 atriði. Mig langar að koma örlítið inn á nokkur sem ég tengi mjög við, sérstaklega vegna fyrra starfs míns sem lögmaður.

Í II. kafla er fjallað um aðkomu dómstóla og sýslumanna að málefnum barna. Þar er rætt sérstaklega um mikilvægi þess að dómstólar og sýslumannsembætti tryggi rétt barns til að tjá sig áður en teknar eru ákvarðanir er varða málefni þess, hvort sem verið er að gera það í fyrsta sinn eða þegar endurmeta skal fyrri ákvarðanir um forsjá, umgengni eða búsetu. Hér er um að ræða öll mál, hvort sem um er að ræða deilu milli foreldra eða deilur þar sem stjórnvöld eru að hlutast til um þessi mál, þ.e. barnaverndarnefndir eru í málarekstri við foreldri barna eða foreldra.

Það er eitt gríðarlega mikilvægt atriði líka sem ég vil benda sérstaklega á, sem er að efla sifjadeildir sýslumannsembættanna þannig að þær geti betur sinnt lögbundnum skyldum sínum um flýtimeðferðir í málum er varða börn, þannig að t.d. umgengnismál fái sérstaka flýtimeðferð. Í þessum málum er algjört ófremdarástand á Íslandi í dag. Þegar ákveðið var að sameina sýslumannsembættin um land allt þá var t.d. talað um það hér á höfuðborgarsvæðinu að sifjadeildirnar yrðu efldar sérstaklega af því að það hafði verið ófremdarástand fyrir sameiningu. Langir málahalar höfðu safnast upp þannig að sviðin, embættin, gátu ekki sinnt sinni lögbundnu skyldu. Það var ákveðið að fara sérstaklega í það að efla sifjadeildina þannig að mál sem varða forsjá, lögheimili og umgengni barna, fengju almennilega meðferð hjá embættinu.

Eins og staðan er núna þá starfa níu löglærðir fulltrúar á sifjasviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, en þeir voru ellefu fyrir sameiningu. Sérfræðingar í málefnum barna voru fjórir hér á höfuðborgarsvæðinu, en það eru sérfræðingar sem sinna þeim lögbundnu hlutverkum að koma að sáttameðferð milli foreldra þegar deilt er um forsjá, lögheimili og umgengni. Það er í barnalögum að foreldrar verða að mæta í þessa sáttameðferð af því að það er talið ótvírætt hagsmunum barna fyrir bestu að foreldrar reyni að komast að samkomulagi. Þessir fjórir sérfræðingar sinntu öllum þessum viðtölum. Hlutverk þeirra er líka að tala við börnin og kanna afstöðu þeirra til málsins. Ef ekki kemst á samkomulag milli foreldranna þá gefa þeir út svokölluð sáttavottorð sem verður að hafa, ætli maður að fara fyrir dóm með málið. Ef ekki takast sættir þá verður fólk að hafa þetta vottorð um að það hafi farið í sáttameðferð.

Eins og áður sagði voru þessir sérfræðingar í málefnum barna fjórir en eru núna á öllu landinu tvö og hálft stöðugildi. Engu umgengnismáli hefur verið úthlutað hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu frá því í apríl sl., ekki einu. Það er þvílíkt ástand þarna að starfsfólkið getur ekki tekið við fleiri málum.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að þarna úti eru börn sem líða kvalir út af þessari vanrækslu stjórnvalda. Börn sem fá ekki að hitta foreldra sína. Börn sem fá ekki að hitta annað foreldri sitt. Börnum sem er meinað að hitta það foreldri sem fer eitt með forsjá. Alls konar svona mál sem bíða úrlausnar, bíða bara eftir að fá þetta vottorð, bíða vegna þess að það er ekki hægt að afgreiða þessi mál. Þótt ég myndi bara tala um þetta atriði þá verðum við að bæta málin þarna.

Mig langar líka að vekja sérstaka athygli á ákvæði 2. liðar í II. kafla sem varðar gjaldfrjálsa uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni. Það er nefnilega eitthvað sem við eigum ekki að venjast. Við förum á alls konar hlýðninámskeið með gæludýrin okkar. Hundaeigendur leggja mikið á sig til þess að læra hvernig á að fá hund til þess að ganga samhliða eiganda sínum og eru vikum saman í alls konar námskeiðum til þess að fá hunda til þess að hætta að hafa hátt, en það spyr enginn hvort við getum þjálfað börnin okkar í góðum háttum. Ég tel líka að það sé mjög mikilvægt að þetta sé gjaldfrjálst, þá verður það að sjálfsögðum hlut fyrir okkur að leita aðstoðar áður en í óefni er komið, og að það sé búið til einhvers konar kerfi sem tekur utan um unga foreldra sérstaklega eða foreldra sem eru að eignast sitt fyrsta barn. Við þurfum ekki bara að fara á námskeið til að læra hvernig á að koma börnunum í heiminn, við þurfum líka að læra hvernig við eigum að hugsa um þau eftir að þau eru komin. Ég fagna því þessu ákvæði mjög.

Loks fagna ég líka mjög þeirri tillögu sem má sjá einnig í II. kafla, sem er mér mjög hugleikinn, að komið verði á fót sérstöku barnahúsi sem vinni með börnum foreldra sem eiga í forsjárdeilum, búa við heimilisofbeldi eða leita eftir alþjóðlegri vernd og það sé jafnframt boðið upp á barnamiðaða fjölskylduráðgjöf. Þetta atriði skiptir mjög miklu máli. Þó að vissulega aðstoði Barnahús börn sem hafa lent í heimilisofbeldi þá er það í rauninni ekki viðurkennt á Íslandi að forsjárdeila, hatröm forsjárdeila, sé heimilisofbeldi. Það getur á köflum verið heimilisofbeldi og bitnað mjög harkalega á börnum sem sýna mikil streituviðbrögð í langvarandi forsjárdeilu. Þetta skiptir líka mjög miklu máli. Vil ég þakka höfundi kærlega (Forseti hringir.) þingsályktunartillögunnar fyrir að setja þetta líka inn.