149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[16:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vil ég byrja á að óska Viðreisn til hamingju með að vera á undan dómsmálaráðuneytinu með að koma fram með þetta frumvarp. Ég heyrði sögu hv. þingmanns um unga manninn sem reyndi að vera með jöfn fjárframlög miðað við móður og fær þá ekki barnabætur; þessi helmingaskipting sem þau reyna að hafa ganga ekki út af því að kerfið segir nei. Ég hef mjög mikinn áhuga á því að greina kerfi og fikta í þeim og undirliggjandi breytum sem hafa áhrif á hvernig kerfið virkar. Eitthvað sem virðist ekki vera mjög augljóst, ef þú breytir því þá hefur það rosalega mikil áhrif á ýmsa aðra hluti sem mann hefði kannski ekki grunað að skiptu máli. Það að viðkomandi fái ekki barnabætur tengt því að viðkomandi sé að greiða meðlag umfram móður í mörgum dæmum — kannski akkúrat ekki þessu, en ýmsum öðrum þar sem meðlag fylgir oft ekki skiptingu á búsetu hjá börnum — hafi þá óbein áhrif á það hvernig laun, og sérstaklega laun kynjanna, hafa þróast. Þar sem, miðað við þessar tölur sem var fjallað um hér, karlmenn eru í minni hluta lögheimilisforeldra, sem þurfa þá að borga meðlag og eru á þann hátt, ef um jöfn laun væri að ræða, með lægri laun, hafi það þrýst launum þeirra (Forseti hringir.) hærra en eðlilegt væri, þ.e. ef þessi undirliggjandi kerfisgalli (Forseti hringir.) væri ekki til staðar. Þetta er mjög opin vangavelta. En mér finnst þetta áhugavert út frá því, þ.e. að svona lítil áhrif geta haft áhrif í stærra samhengi.