149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna. Hv. þingmaður er svolítið fastur í því hverjir gerðu þennan samning á sínum tíma. Ég vil þá spyrja hann hvort það séu pólitískar keilur að bregðast við forsendubresti. Hvernig fær hv. þingmaður það út? Ég er þingmaður í stóru landsbyggðarkjördæmi þar sem ég hef hitt fjölmarga bændur sem hafa allir áhyggjur af samningnum og það verulegar áhyggjur. Það er skylda mín sem þingmanns að reyna að finna lausnir til að bregðast við því vegna þess að þetta hefur áhrif á fjölmargar fjölskyldur í landinu, bændur og hagsmuni Íslands í heild sinni þegar kemur að búvöruframleiðslu.

Ég fæ ekki skilið hvernig hv. þingmaður getur kallað það pólitískar keilur að bregðast við því að Bretland sé að segja sig úr Evrópusambandinu og sé þar með að fara úr samningnum. Þetta er okkar stærsta og besta markaðssvæði. Kannski hefur hv. þingmaður betri útskýringar á því hvað hann er að fara með þessu. Það væri þá gott að heyra þær.

Ég vil líka leiðrétta það sem hann sagði áðan. Það er ekki lagt til í tillögunni að segja samningnum upp, bara einn, tveir og þrír. Það eru sex mánuðir frá því að tillagan er samþykkt þar til uppsögnin á að taka gildi. Sá tími yrði að sjálfsögðu nýttur til að setjast niður með Evrópusambandinu, finna leiðir til að bæta það sem þarf að bæta í samningnum. Það er alveg klárt mál að svo sannarlega þarf að bæta þennan samning. Það felst í því að segja honum upp og gera svo nýjan.