149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[18:11]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann lengstra orða að fara ekki út á þá hálu braut að reyna að lesa í hug minn um eitthvað sem ég hef ekki sagt. Þar er mikil flækja í gangi og ekki heiglum hent að reyna að lesa úr því sem fer fram.

Ég er ekki endilega bara að tala um neytendur, þótt þeir séu vissulega stór breyta í þeim efnum sem verulega þarf að huga að og tollasamningarnir voru hluti af stærri pakka um búvörusamningana eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á. Ég er líka að tala um framleiðendur. Ég spurði hv. þingmann hvað hann ætlaði að gera fyrir framleiðendur þessara 10 millj. lítra af mysu. Hann hefur engu svarað.

Sex mánuðir þykja kannski einhverjum langur tími. En mér þætti gaman ef hv. þingmaður gæti dregið fram fordæmi um alþjóðasamninga um viðskipti og tolllamál sem hefðu náðst á þeim tíma. Við erum oft að tala um margra ára ferli.

Hvað ætlar hv. þingmaður að gera á meðan, frá því að sex mánaða tímabilið hans líður og þangað til samningar nást, ef þeir þá nást? Það er það sem ég er að tala um. Mér finnst ekki mikil fyrirhyggja í þessu. Mér finnst þetta ekki mikil forsjá. Þetta boðar ekki mjög fagleg vinnubrögð.

Hv. þingmaður fór yfir áðan hvað viðburðir í Bretlandi hefðu komið mönnum á óvart örskömmu áður en þeir gerðust. Það getur alveg gerst aftur. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Í þessu tilviki er það þannig að við getum ekki sest niður á morgun og farið að ræða við Breta. Þar eru flækjurnar slíkar að við ráðum engu þar um þótt við gjarnan vildum. (Forseti hringir.) Það umhverfi skýrist ekki fyrr en eftir Brexit. En af hverju vill hv. þingmaður drífa í þessu núna?