149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar að þakka málshefjanda fyrir að hafa frumkvæði að því að setja húsnæðismálin hér á dagskrá þingsins. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er mikill og það er nauðsynlegt að stjórnvöld ríkisins geri sitt til að vinna á honum. Húsnæðisöryggi er nokkuð sem ríkinu ber að tryggja almenningi enda er það grundvöllur fyrir því að fólk upplifi öryggi og góð lífsskilyrði. Við vinnslu fjárlagafrumvarpsins sem nú liggur fyrir þinginu hefur komið á daginn að núverandi ríkisstjórn ætlar að halda áfram á þeirri braut sem fyrri ríkisstjórnir hafa fetað. Þannig er helsti þunginn settur á að fólk geti keypt sér húsnæði. Hvaða afleiðingar hefur þessi stefna? Hún auðveldar það auðvitað fyrir hluta fólks að kaupa sér húsnæði, sérstaklega þeim sem geta með einhverjum hætti safnað þessum 5 milljónum sem þarf í útborgun, annaðhvort með því að búa lengi í foreldrahúsum og safna eða einfaldlega fá lán hjá vinum og vandamönnum. Við sjáum líka að fólk býr miklu lengur í foreldrahúsum á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Rétt um 15% af fólki á aldrinum 25–34 ára búa enn þá í foreldrahúsum, en þessi tala er rétt um 5% á hinum Norðurlöndunum.

Hvað með hina sem geta ekki útvegað sér þessar milljónir? Hvað með fólkið sem neyðist til að fara ungt á leigumarkað? Það er að miklum hluta fólk sem mun aldrei geta keypt sér eigið húsnæði. Leiguverð í Reykjavík og á Íslandi er líka hærra en á öllum Norðurlöndunum og ekki eru launin það miklu betri, sérstaklega ekki hjá láglaunahópum. Aðgerðir stjórnvalda til að auðvelda fólki að kaupa húsnæði eru ekki bara gagnslausar fyrir þetta fólk, þær gætu gert illt verra. Þegar farið er í aðgerðir til að auðvelda aðgengi að húsnæðiskaupum eykst eftirspurn eftir húsnæði til kaupa og verð hækkar og það þýðir að leiguverð hækkar.

Forseti. Ég legg til að við hugum betur að því fólki sem hefur verið skilið eftir á íslenskum húsnæðismarkaði, fólkinu sem er bara að reyna að láta mánaðarbókhaldið ganga upp og mun kannski seint eiga fyrir útborgun.