149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka fyrir umræðu málshefjanda og ráðherra og öðrum fyrir þátttöku í henni. Við skulum tala aðeins um húsnæðisöryggi. Það eru ekki margar vikur síðan að dómsmálaráðherra staðfesti í svari við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur að á tíunda þúsund fjölskyldur hafi verið hraktar af heimilum sínum undanfarin ár frá hruni. Það eru ekki undir 30.000 manns. Íslenskar fjölskyldur, feður, mæður og börn rekin út. Það er húsnæðisöryggið sem þetta fólk hefur búið við. Eigum við hér bara að yppa öxlum, eða hvað? Ætlum við ekkert að læra af þeirri reynslu? Ætlum við ekkert að gera? Ætlum við ekki að bregðast við?

Ætlum við að halda áfram verðtryggingarkerfinu og ofurvaxtafyrirkomulaginu? Ætlum við að búa við verðtryggingarkerfi sem sviptir fólk nánast fjárhagslegu sjálfstæði sínu?

Það er eins og að standa á dýjasandi fyrir fólk sem býr við þetta. Það getur sokkið án nokkurs fyrirvara, eins og reynslan sýnir. Ætlum við að hafa þennan húsnæðislið sem ræðst af ákvörðunum sem eru teknar á skrifstofum, ekki síst hérna við Tjörnina, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson rakti svo ágætlega í ræðu? Ætlum við að innheimta áfram af bréfum þar sem lánastofnanir geta ekki sýnt frumrit? (Forseti hringir.) Hvað á þetta fyrirkomulag að standa lengi án þess að menn hafist að?

Ég leyfi mér, herra forseti, að vekja athygli á frumvarpi sem allir þingmenn Flokks fólksins (Forseti hringir.) og Miðflokksins standa að þar sem er verulega er tekið á þeim málum, verðtryggingunni, (Forseti hringir.) með fjölþættari og víðtækari hætti en áður hefur sést.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir enn þingmenn á að halda ræðutíma.)