149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru margar spurningar sem lúta að verðmyndun á fiski og markaði. Ég ætla að svara fyrst stuttu spurningunni um það: Það var ekki skoðað. Það er ekki gert ráð fyrir því í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar að stokka upp fiskveiðikerfið en ég skal taka umræðu við hv. þingmann hvenær sem er um markaðsvæðingu eða uppboð og fleira því um líkt. Ég vil bara vekja athygli á því að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að markaðurinn ráði verði á afla. Upplýsingarnar eru sóttar inn í gagnagrunna um verðmæti fisksins sem er í viðskiptum og hvaða grunnur liggur til grundvallar útreikningi hlutdeildar sjómanna og útgerða. Þetta eru opinberar upplýsingar um verð á lönduðum afla. Það er það markaðsverð sem við eigum. Þetta er samsafn af opnum mörkuðum eða viðskiptum fyrirtækja eða hvaðeina. Þetta eru upplýsingar sem skilað er til ríkisskattstjóra í gegnum Fiskistofu, (Forseti hringir.) áritaðar á framtöl, og eiga að geta gefið góða mynd af því verðmæti sem þarna heyrir undir.