149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hægt að skoða alla þessa þætti. Ég er alveg tilbúinn til þess. Það sem ég sagði hins vegar í framsögu minni var að við höfum engar vísbendingar um að afkoma eins útgerðarflokks eða mynstur sé að versna umfram annað. Það sem ég vil leggja áherslu á er þetta: Við ræðum um aðgangsheimildir að auðlind. Þegar við erum með það undir er eðlileg krafa að allir greiði jafnt fyrir að fá leyfi til að komast þar að. Það hlýtur að vera sanngjörn og eðlileg krafa.

Þegar við horfum síðan á einhvern tiltekinn útgerðarflokk, sama hvort það er uppsjávarveiði eða trillukarlinn, verðum við að leggja það saman við aðra þætti sem undir það heyra. Þá verðum við að hafa rök fyrir því að „umbuna“ einhverjum tilteknum útgerðarflokki umfram annan. Það eina sem ég bið um er að við höfum rökstuðninginn á hreinu. Hingað til höfum við ekki fengið hann. (Forseti hringir.) Og það er ákveðin ívilnandi regla sem leiðir til þess að 80–90% af minni útgerðum fá 20% afslátt af veiðigjaldinu. Það má alveg spyrja sig: Er það nóg eða ekki? Og ef við ætlum að breyta því þarf að rökstyðja það með ábyrgum hætti.