149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég beindi því til hv. atvinnuveganefndar í ræðu minni að hún skoðaði t.d. álagningu þessa árs og greindi möguleika á að endurskoða hana. Ég segi alveg kinnroðalaust í ræðustólnum að ég tel mikilvægt að menn fari yfir það. Ég vil ekki á þessu stigi leggja fram beinar tillögur um hve miklar lækkanir það eru en það er eðlilegt að þingmaðurinn nefni að það sé ekki hluti af rökstuðningnum við frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra að það eigi að lækka veiðigjaldið. Veiðigjaldið endurspeglar afkomuna og þar sem afkoman er að lækka lækkar þessi fjárhæð. En það eru frítekjumörk og fleiri slík úrræði sem hv. atvinnuveganefnd mun ræða og hefur þá tök á að beita telji hún þess þörf til að taka betur utan um þann útgerðarhluta sem við köllum í almennu tali minni og meðalstórar útgerðir.