149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:11]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri hluta andsvars hv. þingmanns erum við ekki sammála. Ég tel að frumvarpið sé fullnægjandi hvað varðar þær heimildir sem ríkisskattstjóri þarf að hafa til að tryggja rétta meðferð upplýsinga og þar af leiðandi tryggja rétta ákvörðun gjaldstofns og álagningar á veiðigjaldið.

Þegar rætt er um þjóðnýtingu í þessu sambandi er Alþingi auðvitað heimilt með lögum að þjóðnýta hvað sem er. Þá verðum við að skoða ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt sem segir að þegar það er gert, og það verður auðvitað að uppfylla ákveðin skilyrði um almannahagsmuni, þurfi fullar bætur að koma fyrir. Hvaða bætur eru það sem þurfa þá að koma fyrir þegar óbein eignarréttindi eru tekin af mönnum? Hvað ætlar ríkið þá að greiða fyrir það? Það er spurning sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) þarf að svara.