149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla einmitt ekki að festast í umræðu um krónutölur í þessum efnum.

Hvað varðar afstöðu mína til frumvarpsins get ég sagt að í grundvallaratriðum er ég andvígur aðferðafræðinni. Ég tel hana meingallaða og ekki leysa þau grundvallaratriði sem við er að kljást þegar kemur að einhvers konar stöðugu langtímakerfi varðandi gjaldtöku fyrir þennan nýtingarrétt. Ég tel slíka nálgun ekki uppfylla þau grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga og kannski ekki hvað síst fyrir tilstilli greinarinnar sjálfrar, þ.e. að það sé þá líklegt til þess að skapa greininni stöðugleika og fyrirsjáanleika fram á við. Ég held að við munum halda áfram að rífast um það mál verði þetta niðurstaðan, einfaldlega af því að sýn okkar er síðan endalaust misjöfn á það hvað sé rétt eða sanngjarnt eða hvort gjaldið sé hátt eða lágt o.s.frv.

Þegar hv. þingmaður spyr mig út í núverandi gjöld eða hugmyndir Samfylkingarinnar um sérstaka hækkun eða breytingu á frumvarpinu get ég svarað því til að ég myndi ætla út frá verðlagningu veiðiheimilda að útgerðin væri alveg til í að greiða meira fyrir þetta ef hún væri að bjóða í það á frjálsum markaði. En það er aðeins ágiskun mín sem er jafngild og hvers annars. Ég hef ekki hugmynd um það. Það verður bara niðurstaða markaðarins. Það er það sem ég held að sé á endanum skynsamlegasta kerfið og eina leið okkar til þess að fá fram eitthvað sem gæti talist eðlilegt eða sanngjarnt, hvað er greinin sjálf, þeir sem standa í slíkum rekstri, tilbúin til að greiða fyrir nýtingarheimildir í frjálsri samkeppni við aðra rekstraraðila í greininni? Það er að mínu viti hin eina rétta verðlagning. Við stjórnmálamenn getum haft endalausar skoðanir á því hvort við teljum að við höfum með ákvörðunum okkar hitt á einhvern einn réttan punkt eða annan. Ég held að við munum aldrei ná neinni samstöðu um það. (Forseti hringir.) Ég held að miklu eðlilegra sé að horfa til þess að greinin verðleggi þetta sjálf.