149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get tekið undir margt sem kom fram í henni.

Það er eitt sem ég er þó algjörlega ósammála, ég hef heyrt því fleygt í fleiri ræðum í dag en ekki haft tækifæri til að fara í andsvar, og það er sú hugmynd að hluti af auðlindagjaldinu ætti mögulega að renna til sveitarfélaganna. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég sé ýmsa annmarka á þeirri hugmynd. Alveg eins og hv. þingmaður kom inn á er ýmislegt sem fylgir því að útgerð sé í þorpinu og þegar breytingar verða á verða sveitarfélögin mjög gjarnan fyrir miklum skakkaföllum. Ég velti því fyrir mér: Á að bæta ofan á það þegar auðlindagjaldið færist frá einum bænum til annars? Eða hefur hv. þingmaður einhverjar aðrar hugmyndir um hvort það renni beint til viðkomandi sveitarfélags, landsvæðis eða hreinlega inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga?