149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

málefni fatlaðra barna.

[14:06]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Á næsta ári munum við auka mjög fjármagn til ýmissa þátta sem snúa að börnum, bæði varðandi börn með sérþarfir og eins stuðning við börn almennt. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpi sem nú er í vinnslu í þinginu.

Síðan tek ég undir það með hv. þingmanni að við þurfum raunverulegar kerfisbreytingar í þeim málum. Það verður maður var við alls staðar í samfélaginu en vandinn er sá að þetta fellur inn í mörg kerfi. Þetta fellur inn í nokkur ráðuneyti, nokkrar stofnanir, milli stjórnsýslustiga, sveitarfélaga og ríkis, og þarna þurfum við algjörlega nýja nálgun og nýja hugsun. Ég vonast til þess að þingmannanefndin sem tók til starfa í dag hafi kjark og þor til að vera dálítið róttæk í hugmyndum sínum um breytingar á kerfinu vegna þess að við þurfum að setja börnin í fyrsta sæti og við þurfum að breyta öllu velferðarkerfinu á sama hátt. Um leið og ég þakka fyrirspurnina skora ég á hv. þingmann að vera nógu róttækur í hugsun í þeirri nefnd sem hann hóf störf í í dag.