149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

viðbrögð samgönguráðherra við óundirbúinni fyrirspurn.

[14:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að ræðustóllinn er opinn. Míkrófónar hérna eru opnir. Það er ekki til siðs að þagga niður í mönnum þótt þeir beri tíðindi sem fara í taugarnar á einhverjum hérna inni. Þess vegna þykir mér leitt að hæstv. samgönguráðherra skyldi áðan þegar hann fékk upplýsingar sem eru mikilvægar frá fagmanni sem þekkir til, sem veit, sem kann, í staðinn fyrir að vera traustvekjandi og segja frá því hvar til sé starfsemi í ráðuneytinu til að laga það sem bent er á, kjósa að skjóta sendiboðann og segja að hann auki á ótta landsmanna út af flugöryggi á Íslandi.

Það er fjarri öllu lagi að ráðherrar séu með þöggunartilburði þegar menn koma fram með upplýsingar sem alla varða. Ég skil ekki, hæstv. forseti, að menn skuli leggjast í þann leik.