149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eiginlega jafnringluð og aðrir í þingsal yfir málinu öllu þó að mér sé fullkunnugt um hversu mikilvægt það er.

Það vekur óneitanlega athygli mína að hvergi í máli sínu hafi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra rætt um umhverfisþáttinn í málinu. Hann talar vissulega um að flýta þurfi allri meðferð. Þetta eru miklir hagsmunir. Það þarf að horfa til þess að ekki verði mikið tjón og þess vegna verðum við að bregðast við. En það hefur ekkert verið rætt um umhverfisvernd eða umhverfisþáttinn, sem er auðvitað risastór þáttur í málinu.

Það er einmitt þess vegna sem maður er pínulítið hugsandi núna yfir því hvers vegna þurfi að keyra málið í gegnum þingið á leifturhraða, á einum sólarhring, og langt í frá að vandlega yfirveguðu máli, ég veit ekki til þess að hæstv. atvinnuveganefnd hafi t.d. fengið umhverfisfræðinga á sinn fund.

Þess er skemmst að minnast að það tók eftirlitsaðila sem áttu að hafa eftirlit með fiskeldi á þessu svæði tvær vikur að koma sér á staðinn þegar slys urðu. Hæstv. ráðherra talaði heldur ekki um eftirlitsaðila eða hvort ætti að fara í þann þátt.

Mig langar að velta fyrir mér og biðja hæstv. ráðherra að velta fyrir sér þeim þætti og svara þingheimi hvort hann hafi ekkert hugleitt að einhver álitaefni kunni að vera er varða umhverfisvernd þegar kemur að fiskeldi.