149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hans. Þetta er kannski ekki fordæmisgefandi eins og þingmaðurinn talaði um af því það er beinlínis réttarheimild sem verið er að óska eftir að sett verði hér, þ.e. lög, lagaákvæði. Með vísan í slíkt lagaákvæði er auðvitað hægt að byggja kröfur um að ráðherra — og þar kemur fordæmið mögulega inn — veiti slík bráðabirgðaleyfi.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um alvarleika málsins. Ég er hjartanlega sammála því að ekki eigi á þessum tímapunkti að ganga fram og stöðva reksturinn sem er þarna núna af því að við stöndum frammi fyrir því að ef reksturinn er stöðvaður í dag og niðurstaða dómstóls verður önnur er íslenska ríkið skaðabótaskylt um tugi milljarða kr., fyrir utan samfélagslegt tjón og tjón hjá öllu því fólki, einstaklingum og fjölskyldum, sem þangað hefur flutt. Fyrir mér er það hafið yfir allan vafa að við verðum að fá niðurstöðu í málið, það verður ekki gert nema leyfa starfsemina þangað til niðurstaðan er fengin. Þar er ég algjörlega sammála.

Það sem er að málinu er það stjórnsýslulega, að ekki sé farið í frestun réttaráhrifa, sem er stjórnvaldsákvörðun, heldur í lagasetningu, sem er almenn ákvörðun, sem er ekki bráðabirgðaákvæði. Þá má velta fyrir sér: Af hverju er ekki farið í bráðabirgðaákvæði frekar en lagafrumvarp?