149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Hver ber ábyrgðina ef náttúran verður fyrir óafturkræfum spjöllum? Hér hefur hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, talað mikið um hið fjárhagslega tjón. Hæstv. ráðherra gerði það líka. En hvorugt þeirra minnist einu orði á náttúruna. Hver ber ábyrgðina ef náttúran verður fyrir óafturkræfu tjóni?

Óskað var eftir rökstuðningi fyrir því af hverju ætti að leita umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar af því að þetta mál væri umhverfis- og samgöngunefnd óviðkomandi. Ég kalla hér eftir afstöðu annarra þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli sem eru algerlega fjarverandi í þessari umræðu, þótt tvær sitji hér í hliðarsal. Það virðist vera sem þeim standi hjartanlega á sama um þetta mikilvæga mál. Það vekur undrun þeirrar sem hér stendur að þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem til þessa dags hafa viljað telja sig fremsta allra í umhverfismálum skuli ekki fjalla neitt um þetta. Það kemur mér mjög á óvart og vil ég spyrja þá þingmenn sem eru í húsi og mögulega hlusta á þessa umræðu: Eru þeir sammála því að þetta mál er varðar fiskeldi sé umhverfis- og samgöngunefnd algerlega óviðkomandi?

Að lokum, fyrst hæstv. umhverfisráðherra er mættur í hús, það var kallað eftir honum áðan, vil ég líka fá að heyra afstöðu hans til þessa máls, til þess að þetta sé umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) óviðkomandi og heyra afstöðu hans til þess (Forseti hringir.)hvort þetta mál allt saman sé mögulega brot á alþjóðasamningum sem (Forseti hringir.)Ísland er skuldbundið, eins og t.d. Árósasamningi.