149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Sagan er oft hjálpleg þegar við ræðum mál sem eru efst á döfinni hverju sinni. Þegar kemur að fiskeldi er gott að hafa í huga að stjórnvöld tóku þá ákvörðun á sínum tíma, árið 2006 minnir mig að það hafi verið, að banna fiskeldi við Ísland nema á þremur stöðum, við Vestfirði, Eyjafjörð og Austfirði. Það var ákveðin stefnumarkandi ákvörðun af hálfu stjórnvalda. Við þekkjum síðan söguna, fiskeldisfyrirtæki hafa farið á hausinn. En síðan sjáum við á síðustu árum að þau hafa farið af stað, hafa sótt um leyfi, ekki síst á Vestfjörðum, á suðurfjörðunum, þar sem burðarþolið liggur fyrir, heimild varðandi áhættumatið er skýr, og þau hafa sótt um leyfi á þeim forsendum.

Auðvitað tengist þetta líka stærra málinu sem ég bíð spennt eftir að komi fram af hálfu ráðherra, afstöðu varðandi það hvaða kröfur eigi að gera o.s.frv.; ég kem að því á eftir. En auðvitað er það þannig að þessi fyrirtæki hafa farið af stað í góðri trú með vitund og vilja stjórnvalda. Við skulum hafa í huga að á árunum frá því að þessi stefnumarkandi ákvörðun, um að banna fiskeldi við Íslandsstrendur nema á þessum þremur stöðum, var tekin hafa setið hér ríkisstjórnir allra flokka; allir hafa getað komið að málinu og hafa haft áhrif á þá stefnu sem ríkt hefur.

Sú staða sem er komin upp núna sýnir að regluverkið þarf að skoða betur. Ég hvet hæstv. ráðherra, sem stendur hér í dyragættinni, til að leggja stóra frumvarpið fram sem fyrst þannig að við getum farið að marka línur til framtíðar, leggja línur, ræða auðlindagjöld í fiskeldi eins og á að vera í öllum öðrum atvinnugreinum o.s.frv. En þegar við skoðum þetta og sjáum hvaða áhrif þetta hefur haft á Vestfirði, atvinnuuppbyggingu, samfélag, mannlíf, þá er það, að mínu mati, partur af því sem við köllum almannahagsmuni.

Þegar við skoðum þetta mál þá eru sérhagsmunir allt í kringum borðið, t.d. sérhagsmunir fiskeldisfyrirtækja, og það er hægt að gagnrýna þau mjög harkalega í þessu líka; ég kem að því á eftir. Einnig er hægt að tala um sérhagsmuni veiðiréttarhafa; þeir eru líka til staðar. Hverjir eru almannahagsmunirnir í þessu máli? Almannahagsmunirnir eru samfélagsins fyrir vestan og ekki bara þess heldur alls heildarsamfélagsins, samfélagsins Íslands. Ég trúi því að í þessum sal séum við öll á þeirri skoðun að vilja halda landinu okkar í byggð. Það viljum við gera. Þá ber okkur að taka það alvarlega þegar upp koma aðstæður sem ógna tilveru fjölskyldna sama hvar á landinu það er.

Ég tek undir það sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir sagði hér áðan: Ég vara við því að draga þetta mál fram sem andstæðu þéttbýlis eða landsbyggðar, náttúruverndarsinna eða atvinnulífssinna. Mér fannst líka erfitt að heyra einn stjórnarþingmanninn draga úr gildi þess regluverks sem við þó höfum komið upp, hvort sem það heitir Umhverfisstofnun, MAST eða Skipulagsstofnun. Síðan höfum við úrskurðarnefnd umhverfismála sem hefur eftirlit með þessum stofnunum. Við fengum allar þessar stofnanir, sem eru húrrandi óánægðar með úrskurðarnefndina, til okkar áðan, en þær verða engu að síður að hlíta því regluverki sem við höfum komið upp. Við höfum þessa svipu, við höfum þetta eftirlit til þess einmitt að menn fari varlega. Við þurfum að byggja upp regluverk sem horfir til framtíðar.

En þegar aðstæður skapast sem ógna mannlífinu, uppbyggingunni, sem átt hefur sér stað, á Vestfjörðum verðum við stjórnmálamenn einfaldlega að skoða hvað hægt er að gera án þess að fara alltaf í þessar sértæku aðgerðir. Það verður að segjast eins og er, þekkjandi þá ríkisstjórn sem nú situr — við vitum m.a. um það frumvarp sem á að koma um veiðigjöldin — að það er ósköp auðvelt að trúa því að það dugi fyrir nokkra aðila að hringja í ríkisstjórnina og segja: Getið þið ekki bara reddað þessu? Ég vil ekki endilega taka þátt í slíkri afgreiðslu. Ég vil hins vegar taka þátt í því að afgreiða þetta þannig að við byggjum upp atvinnugreinar til lengri tíma, hvort sem það er fiskeldi, sjávarútvegur eða annað.

Hverjir eru mestu hagsmunir fiskeldis hér á Íslandi? Við skulum hafa í huga að skýrsla var samin í fyrra og það varð ákveðin niðurstaða. Ég vil vel að merkja brýna þá hagsmunaaðila sem komu að þeirri skýrslu til dáða; þeir bera ábyrgð, þeir sameinuðust um ákveðna niðurstöðu. Veiðiréttarhafar geta ekki hlaupið frá þeirri skýrslu frekar en fiskeldismenn eða stjórnvöld. Það varð niðurstaðan að fara eigi eftir áhættumati, m.a. Hafró, og hafa burðarþolið til viðmiðunar. Þá hljóta fyrirtækin og samfélögin að geta gengið út frá því að svo verði og að unnið verði eftir því.

Það er erfitt að sjá — við erum farin af stað og svo koma svona aðstæður upp og við erum að reyna að þróa kerfi sem heldur utan um atvinnugreinina — að menn fari að rífa það regluverk niður, eins og mér fannst koma fram í máli eins hv. þingmanns Vinstri grænna; mér fannst hann gera lítið úr úrskurðarnefndinni.

Hvar á Íslandi getum við haldið áfram að byggja upp atvinnugreinina fiskeldi, 71 þús. tonn sem Íslendingar ætla að framleiða? Við erum með u.þ.b. 15 þús. tonn núna, áætluð 25 þús. tonn á árinu 2020 ef öll skilyrði verða uppfyllt vel að merkja, hafa það alltaf í huga, og síðan heldur þetta koll af kolli. Síle er núna með u.þ.b. 400 þús. tonn. Þar ætla menn að fara upp í 700–800 þús. tonn. Norðmenn eru með milljón tonn í fiskeldi. Þeir hafa sett markið mjög hátt, þeir ætla að fara upp í 5 millj. tonn árið 2040.

Hvernig getum við þá sem Íslendingar keppt á þessum markaði og á hvaða forsendum ætlum við að keppa? Við ætlum að sjálfsögðu að keppa — og ég hef heyrt forsvarsmenn greinarinnar segja þetta sem og aðra — á grundvelli gæða. Hvað fela gæði í sér? Það eru skýrar kröfur. Strangar kröfur. Við verðum að gera eins og Færeyingar sem hafa farið nokkrum sinnum á hausinn en tóku sig algerlega í gegn síðast og ákváðu að gera ströngustu kröfur sem hægt væri að hafa í fiskeldi. Þeir eru komnir á húrrandi siglingu. Útflutningurinn er meiri í fiskeldi í Færeyjum í dag en í venjulegum sjávarafurðum. Þannig eigum við Íslendingar að vinna.

Ég hlýt því að spyrja og við hljótum öll að velta því fyrir okkur: Ef við ætlum að byggja upp á ábyrgan hátt atvinnugrein sem getur orðið ein af burðarstoðum íslensks samfélags, hvernig ætlum við að gera það? Það er ekki trúverðugt nema búið sé að rökstyðja það mjög vel. Og mér finnst enn vanta á það hjá hæstv. ráðherra, sem ég veit að vill vel, að rökstuðningur með frumvarpinu tryggi að réttaróvissu verði eytt; að það sé gert með þeim hætti að ekki sé um að ræða sértækar aðgerðir.

Hvað er vont fyrir fiskeldi og kemur í veg fyrir að við getum selt afurðirnar okkar á hærra verði til lengri tíma? Það er ef löggjafinn er alltaf að stökkva inn í, grípa til ráðstafana, koma með skítareddingar. Það má ekki gerast. Ég vara líka við því að þetta snýst ekki um stjórn eða stjórnarandstöðu að við þurfum að ræða málin hér. Það er hagsmunamál okkar allra að við gerum þetta vel.

Þess vegna hljótum við að fá að fara vel yfir þetta í atvinnuveganefnd, fá svör við því hvernig við eyðum stjórnsýslulegri óvissu í þessu máli. Það kom alveg skýrt fram, m.a. á fundi nefndarinnar í morgun, af hálfu Umhverfisstofnunar, sem var ekki endilega samferða um að þessar heimildir væru ekki til staðar. Það getur vel verið að lagaramminn í dag heimili þetta, að ráðherra geti einfaldlega, í ljósi meðalhófs í stjórnsýslulögum, hoggið á hnútinn og frestað réttaráhrifum; ef við tökum allar grunnprinsippreglur stjórnsýslulaganna, um meðalhófið, um jafnræðisregluna og um allt það sem skiptir okkur máli í stjórnsýslulögum.

Þess vegna spyr ég: Var málið einfaldlega svona erfitt innan ríkisstjórnar að það þurfti að fara með það hingað inn í þingið? Ég viðurkenni það alveg að manni bregður þegar maður fær símtal frá hæstv. ráðherra, sem mér finnst alla jafna gott að heyra í. Sú hefur ekki verið raunin í öðrum málum, ekki öðrum risamálum sem tengjast veiðigjöldum, auðlindagjöldum á sjávarútveginn. Þar hefur ekkert samráð verið haft. Af hverju er þá allt í einu verið að tala um að upplýsa hluti í þessu máli? En ég þakka fyrir það. Það er þó gert og ég fagna því samtali, mér fannst það til bóta að hafa verið upplýst fyrir fram um það sem til stóð. Ég vil hvetja ráðherra til að vinna oftar þannig.

Það er engan veginn öruggt að þessi leið höggvi á þá hnúta sem þarf að höggva á. Hefði ráðherra ekki einfaldlega getað tekið þetta sjálfur í fangið? Eða hæstv. umhverfisráðherra? — og ég vil líka þakka honum fyrir að vera hér. Við kölluðum á hæstv. ráðherra hér áðan af því að það er ekki skýrt hvað tekur við ef við ýtum þessu máli að vel ígrunduðu máli út úr þinginu og klárum það.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar að reyna að flýta sér og afgreiða og klára málið. En hvað ætlar umhverfisráðherra að gera? Því hefur ekki verið svarað. Segjum að Alþingi vinni heimavinnuna sína, klári málið með sómasamlegum hætti þannig að við eyðum óvissu — þeirra sem starfa innan greinarinnar, þeirra sem búa í samfélaginu fyrir vestan, og þeirra sem hafa komið að málinu með öðrum hætti — og hvað þá? Hvað ef óvissunni verður ekki eytt með því að þingið klári málið frá sinni hendi? Hvað ætlar framkvæmdarvaldið að gera? Mér finnst skipta máli inn í þetta allt að ráðherrarnir, bæði umhverfis- og sjávarútvegsráðherra, segi hvað þeir ætla að gera þegar þessu er lokið, hver verði framvindan, hver er tímalínan. Við þurfum að fá að vita hvers vegna við förum þessa fjallabaksleið. Lái mér hver sem vill, ég vil læra af sögunni og vanda til verka.

Þetta eru spurningar og vangaveltur sem ég vona að við séum sammála um. Ég heyrði að hv. þm. Smári McCarthy var með nákvæmlega sömu hugsunina og nálgunina. Við viljum einfaldlega vanda til verka. Við skiljum þá angist sem er fyrir vestan. En hún er ekkert bara fyrir vestan, við viljum að þetta gangi vel fyrir sig. En við viljum heldur ekki slaka á kröfum til fiskeldisfyrirtækjanna.

Það er alveg ljóst, og kom fram á fundum í morgun með MAST, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun, að þó að fiskeldið sé farið af stað þá erum við samt enn að móta regluverkið. Af hverju fóru fiskeldisfyrirtækin ekki ýtrustu leiðina og mátu þessa valkosti? Við vitum að geldfiskur er ekki kominn lengra, af hverju var samt ekki farið yfir það? Við vitum að landeldið á ekki mikla möguleika fyrir vestan, það vita það flestir, en er ekki gott, þegar við erum að fara í frekari aðgerðir í fiskeldismálum og í ákveðna sókn, að við séum þá búin að tikka í boxið, fara yfir hlutina og gera það þannig að við höfum svörin á reiðum höndum, eða að við getum svarað því að gríðarleg þróun sé í lokuðum sjókvíum?

Staðan er allt önnur núna en var fyrir tveimur árum, menn þurfa einfaldlega að fara yfir það. Gagnrýni mín lýtur að fiskeldisfyrirtækjunum, þau verða að taka því alvarlega, ekki bara segja að þau vilji vel. Þau verða að taka kröfur um náttúruvernd, virðingu fyrir lífríki og umhverfi, alvarlega. Menn eiga að gera það þó að það kosti aðeins lengri leið. Bara það atriði hefur leitt til þess að við stöndum í þessum sporum í dag. Það er ekki kerfinu að kenna. Það er ekki vondu embættismönnunum eða fólkinu í úrskurðarnefndinni að kenna eða fólkinu hjá stofnununum að kenna. Jafnvel ekki ráðherrunum.

Menn þurfa líka að líta í eigin barm í fiskeldinu þegar kemur að þessari nálgun. Ég vil hvetja það fólk til dáða. Ég veit að metnaður er til þess að halda áfram, gera skýrar kröfur, enda kom það fram í skýrslu, í niðurstöðu nefndar, á síðasta ári sem ég gat um hér áðan. Það var alveg skýr vilji til að fara að vísindalegri ráðgjöf, fara að ýtrustu kröfum. Við eigum að fylgja þeirri vegferð eftir og reyna að halda henni áfram.

Hæstv. forseti. Þegar við förum yfir málið á eftir munum við að sjálfsögðu kalla til helstu stjórnsýslusérfræðinga. Ég vona að umboðsmaður Alþingis komi á fund okkar því að við verðum að búa þannig um hnútana að fólkið fyrir vestan, fólkið í atvinnugreininni, umhverfisverndarsinnar, fólk í samfélaginu almennt, geti treyst því að það regluverk sem Alþingi samþykkir hér í dag, og síðan þegar við förum yfir heildarlögin, sé framtíðarmál, sé eitthvað sem hönd er á festandi, sé trúverðugt fyrir greinina og fyrir alla sem að málum koma. Það er þannig sem við í Viðreisn ætlum að vinna. Við ætlum að vanda okkur. Við ætlum að hafa alla þessa ríku hagsmuni, samfélagslegu hagsmuni, að leiðarljósi við vinnu okkar.