Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:18]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008 (rekstrarleyfi til bráðabirgða). Ég ætla ekkert að halda langa ræðu en ákvað samt að koma hingað upp til að rétta úr mér. Eins og staðan er er um að ræða mjög alvarlegt mál, það hefur komið fram. Talað er um að skýrleiki sé ekki nógur í regluverkinu, formgalli og slíkt. Ég veit að menn hafa leitað allra leiða undanfarna daga til að bregðast við ástandinu. Nú er þetta frumvarp komið fram frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem mér sýnist gera að verkum að þessi fiskeldisfyrirtæki fyrir vestan geta haldið áfram starfsemi sinni. Starfsemi þeirra er í raun ólögleg í dag — það er búið að taka af þeim leyfið. Þetta einangraða mál snýst ekki um að vera með eða á móti laxeldi, en ýmislegt hefur komið fram í ræðum um það hvað fólki finnst og finnst ekki. Það er í raun og veru önnur umræða sem við eigum að sjálfsögðu að fara í.

Ég hef fylgst með málum í nokkur ár í gegnum pólitíkina og hef farið nokkuð oft vestur á firði. Síðustu fimm eða sex árin hef ég séð gríðarlegar breytingar til betri vegar á atvinnuástandi á Vestfjörðum. Það hefur komið fram í ræðum hér að Vestfirðingar hafa misst mikinn kvóta, að þeir hafi selt hann frá sér. Það er alveg rétt og það er umræða sem ég gæti líka tekið á öðrum vettvangi, það er staðreynd. Staðan er sú að komið er svar við því sem gerðist þá, Vestfirðingar eru farnir að byggja upp sín atvinnumál á annan hátt en að sækja fisk út í sjó að stóru leyti. Verðmætasköpunin er gríðarleg, atvinnuuppbyggingin mikil, fjölgunin er mikil í byggðinni og það er gríðarlega gaman að fylgjast með því.

Ég stuðaðist pínulítið þegar ég kom vestur um daginn. Yfirleitt þegar maður kemur vestur á firði og heimsækir bæði fyrirtæki og fólk hittir maður oftar en ekki reiða Vestfirðinga, þeir eru upp til hópa mjög ákveðið og duglegt fólk. Ef þá vantar eitthvað slá þeir í borðið og segja: Hingað og ekki lengra. En núna varð ég var við að þeir sögðu að þeir væru orðnir þreyttir. Fólk væri orðið þreytt á því hvernig ástandið væri orðið. Vestfirðingar hafa beðið eftir nýjum vegi um Gufudalssveit frá árinu 2006 sem var þá tilbúinn til framkvæmda. Ekkert hefur skeð. Það er búið að möglast í kerfinu í gegnum alls konar kærumál, mjög sorgleg saga, einhvern veginn sagan endalausa.

Vestfirðingar hafa viljað taka til í raforkumálum. Unnið hefur verið að því að undirbúa virkjun við Hvalá, Hvalárvirkjun. Það eru komnir fram hópar umhverfis- og náttúruverndarsinna sem sjá því allt til foráttu og tala um ósnerta náttúru. Síðan kemur þetta mál upp núna. Ég hef oft talað um það, og sérstaklega lagt á það áherslu undanfarið, að minni kurteisi er svolítið lokið í sambandi við þessa umræðu, þegar verið er að tala um umhverfis- og náttúruvernd. Það er yfirleitt talað um þau mál í svolítið einangraðri umræðu. Það er alltaf talað um að náttúran þurfi að njóta vafans og ég get alveg verið sammála því, en það gleymist að ræða um samfélagsþáttinn. Mér finnst að þegar við ræðum um uppbyggingu byggðamála úti á landi, eða í hvernig formi sem það er, þurfum við að tala um þetta þrennt í einu; umhverfismál, náttúruvernd og samfélagsvernd og uppbyggingu. Við mannfólkið erum partur af náttúrunni.

Ég minntist á þreytta Vestfirðinga áðan og ég bið þá svo sannarlega um að vera áfram reiðir og berja í borðið. Þannig hafast hlutirnir oft í gegn.

Ástæða þess að þessi staða er komin upp hefur verið reifuð og hún er í raun mjög ótrúleg, að þetta skuli hafa getað skeð, eins og maðurinn sagði. En það er staðreynd og hér er komin leið sem ég mun styðja. Ég mun ekki standa í vegi fyrir því. Sá tími sem þetta er í gildi og þar til þetta rennur út verður vonandi notaður til að koma málunum á hreint til frambúðar. Það er mjög brýnt.

Það hefur líka verið minnst á gjaldtöku sem er ekki búið að forma eins og á margan hátt skyldi gera í sambandi við fiskeldið. Þá langar mig að nefna að ég hef lagt fram þingsályktunartillögu, sem kemst vonandi fljótlega á dagskrá, um greiningu auðlinda og gjaldtöku auðlinda. Við Íslendingar erum ríkir af auðlindum en umræðan um auðlindir og auðlindagjald einangrast yfirleitt við sjávarútvegsauðlindina. Sjávarútvegurinn hefur oft verið talaður mjög mikið niður út af því hvernig sú umræða hefur þróast. Er það mjög miður.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta önnur en þau að ég vona að málið fái farsælan endi. Það verður að gera það. Það er allt á öðrum endanum fyrir vestan. Lánastofnanir eru farnar að halda að sér höndum út af þessu máli og um er að ræða háar upphæðir. Þetta einangraða mál er ekki umhverfismál, þetta er spurning um að þessi starfsemi sem hefur verið komið á fót fái að halda áfram.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vona að þetta máli fái farsæla afgreiðslu.