149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Með lögum þeim sem Alþingi samþykkti í gær var brugðist við miklum bráðavanda sem vofði yfir heilu byggðarlögunum vestur á fjörðum. Auðvitað var óhugsandi annað en að gripið yrði inn í þá atburðarás sem lá fyrir. Ég lít svo á að þarna hafi þingið einungis verið að takast á við hluta þess vanda sem fylgir úrskurði úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Við þurfum að skoða aðeins betur hvað varð til þess að sú staða kom upp og hvaða forsendur lágu að baki þeim úrskurði.

Mín skoðun er sú að rót vandans liggi í því að í allri löggjöf, mati á umhverfisáhrifum, leyfisveitingum, skipulagsmálum, sé að koma í ljós að lagaákvæðin eru óljós, þau eru matskennd og löggjafinn að framselja of víðtækt vald til stjórnsýslunnar til að taka veigamiklar ákvarðanir, grundvallarákvarðanir um auðlindanýtingu og innviðauppbyggingu í þessu landi. Við þurfum að gefa því nánari gaum. Við þurfum að gefa því gaum að stjórnsýslan sjálf og stjórnsýsluframkvæmd hennar er óljós og jafnvel þversagnarkennd.

Herra forseti. Þær stofnanir sem áttu hlut að máli eru til að mynda allsendis ósammála um túlkun á atriði um valkostagreiningu við mat á umhverfisáhrifum. Það þarf þingið að skoða nánar. Það er ekki annað í boði. Hér er mikilla úrbóta þörf.