149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:18]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að biðja um þessa umræðu hér með sérstaka áherslu á krónu á móti krónu skerðingar. Áður en ég kem að svörum við þeim spurningum sem til mín var beint vil ég hafa smáinngang, rétt eins og hv. þingmaður gerði.

Eins og hv. þingmanni er kunnugt stendur yfir vinna, sem m.a. hann er þátttakandi í, við að skoða leiðir að nýju framfærslukerfi almannatrygginga fyrir fólk með skerta starfsgetu ásamt því að taka upp nýtt mat á starfsgetu sem ætlað er að leysa af hólmi núverandi örorkumatskerfi. Ég vonast til þess að hugmyndir í þessa veruna geti verið kynntar á næstunni.

Það er mér verulegt áhyggjuefni, áður en við förum lengra, að sjá að nýgengi örorku hér á landi slagar hátt upp í náttúrulega fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði. Við sjáum jafnframt að hlutfall ungra öryrkja á aldrinum 18–39 ára er hæst á Íslandi í norrænum samanburði en 29% öryrkja hér á landi eru á þessum aldri. Þarna er sannarlega verk að vinna.

Um er að ræða mikilvægt samfélagsmál sem varðar okkur öll og við verðum að stöðva þessa þróun. Þar verðum við fyrst og síðast að huga að líðan ungmenna okkar sem byggja eiga framtíð þessa lands en rannsóknir sýna að vanlíðan þeirra hér á landi hefur aukist. Ég hef miklar áhyggjur af þessari þróun og við megum ekki skella skollaeyrum við þessum skilaboðum. Einnig verðum við að huga að forvörnum á vinnustöðum en það er ekki í lagi að keyra svo um þverbak að fólk heltist í stórum stíl út af vinnumarkaði vegna streitu og annars konar álags. Þar erum við sem samfélag klárlega að spara aurinn en kasta krónunni.

Við getum heldur ekki endalaust kallað á atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu séu störf ekki í boði sem geti tekið tillit til aðstæðna þeirra sem ekki geta unnið fullan vinnudag. Þar þarf atvinnulífið að skoða sinn þátt, en í því sambandi vil ég minna á að fólk með skerta starfsgetu er mjög langt frá því að vera einsleitur hópur.

Virðulegur forseti. Áhersla er á að efla virkni fólks með skerta starfsgetu og legg ég því áherslu á að til verði framfærslukerfi sem hefur að geyma hvata til atvinnuþátttöku þess hóps sem ég minntist á áðan. Ég treysti því góða fólki, þar á meðal hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni, til að koma fram með góðar lausnir í þessu efni. Ég þori þó að fullyrða að allir þeir sem komið hafa að þeirri vinnu séu einhuga um að í þeim tillögum verði gert ráð fyrir fullu afnámi framfærsluuppbótar og þar með talið svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu. Ég ítreka að í þessum tillögum og þeirri vinnu sem er í gangi og er vonandi á lokametrunum gerum við ráð fyrir því að afnema að fullu krónu á móti krónu skerðingar.

Síðan var hv. þingmaður með afmarkaðar spurningar og ég ætla að svara þeim eftir bestu getu. Ef ég næ því ekki í fyrstu lotu geri ég það seinna í umræðunni.

Varðandi fyrstu spurninguna liggur ekki fyrir á þessari stundu hvort unnt verði að gera fullar breytingar á framfærsluuppbót örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega áður en framangreindar breytingar á bótakerfi almannatrygginga hafa verið gerðar. Ég tel aftur á móti fulla ástæðu til að skoða þetta mál sérstaklega og hef látið kanna að leggja til breytingar á fyrirkomulagi þessa bótaflokks þannig að í stað þess að allar tekjur, þ.e. 100% tekna lífeyrisþega, hafi áhrif á útreikning uppbótarinnar geti það hlutfall verið lægra.

Ég ítreka, eins og hv. þingmaður kom inn á, að við erum með á næsta ári 4 milljarða, nýja, inn í þetta kerfi. Ég hef sagt það, bæði opinberlega og við hagsmunasamtök, bæði Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, að útfærsla á því hvernig við ráðstöfum því fjármagni yrði unnin í samstarfi við þessi samtök. Það liggur fyrir að við erum með 4 milljarða, við getum notað þá til þess að draga úr þeim skerðingum sem hv. þingmaður kom inn á, en með nýju kerfi sem við erum að fara inn í gerum við ráð fyrir breytingum sem muni að fullu afnema krónu á móti krónu skerðingu.

Önnur spurning hv. þingmanns var hvort öryrkjar fengju afturvirka leiðréttingu á krónu á móti krónu skerðingu frá 1. janúar 2017. Við þessu vil ég segja að það hefur ekki verið til skoðunar innan ráðuneytisins að framkvæma slíka afturvirka leiðréttingu. Um 8.000 lífeyrisþegar fá greidda framfærsluuppbót í hverjum mánuði samkvæmt gildandi lögum og þrátt fyrir að allar tekjur lífeyrisþega hafi áhrif á útreikning uppbótarinnar höfum við ekki fengið ábendingar um með hvaða öðrum hætti skuli greiða uppbótina. Því er það í raun óljóst hvernig standa skyldi að slíkri leiðréttingu formlega séð.

Ég ítreka, af því að tími minn er á þrotum, að það er gríðarlega mikilvægt að við náum að bæta kjör örorkulífeyrisþega í þessu landi, en það er jafnframt mikilvægt að okkur takist að ná utan um (Forseti hringir.) þennan hóp, sérstaklega ungs fólks sem er að falla út af vinnumarkaði. Ef okkur tekst vel til ætti hann ekki að lenda á örorkubótum. (Forseti hringir.) Það eru breytingar sem við verðum að gera samhliða og (Forseti hringir.) það ætlar ríkisstjórnin að gera, hún ætlar að ná utan um þessi tvö verkefni samhliða og það gerist vonandi með tillögum á næstunni eins og þingmaðurinn veit.