149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:39]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni, fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga réttlætismáli. Það eru örugglega allir í salnum sammála því að við eigum að feta okkur inn á þá braut og afnema krónu á móti krónu skerðingu.

Mig langar aðeins að fara inn á forvarnir og gagnreyndar meðferðir. Undanfarin ár hefur ungum öryrkjum fjölgað og eru geðraskanir langalgengasta ástæðan. Margar ástæður hafa legið þar að baki og mikilvægast að þeir einstaklingar og fjölskyldur þeirra fái viðeigandi hjálp. Kannabisreykingar hafa skaðlegar afleiðingar og margir fara í geðrof vegna vímuefnavanda. Hvernig hjálpum við því fólki? Forvarnir skipta miklu máli og við þurfum að gera átak í þeim. Þeim einstaklingum þarf líka að standa gagnreynd meðferð til boða. Það er mikið áfall fyrir fjölskyldu þegar ungur einstaklingur í blóma lífsins leiðist út í vímuefnavanda og endar á örorku. Kerfið má ekki bregðast því fólki. Við þurfum að gera betur og eigum að gera betur.

Slys og andleg áföll geta markað djúp spor í lífi einstaklings. Margir þurfa að lifa með krónískum verkjum árum saman vegna þessa. Því fólki getum við hjálpað. Síðasta vetur lagði ég fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um vefjagigt á Íslandi. Vefjagigt er talin meðvirkur þáttur í 75% örorku hjá 14% allra kvenna sem eru á örorku. Tekið skal fram að örorka vefjagigtarsjúklinga orsakast af samverkandi þáttum vefjagigtar, annarra stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma. Út frá þeirri fyrirspurn ákvað ég að leggja fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðanir á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiðið að styrkja greiningarferlið og geta boðið upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.