149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Lífslíkur á Íslandi eru með þeim mestu í Evrópu. Íslenska heilbrigðiskerfið er gjarnan sagt vera eitt það besta í heimi. Þrátt fyrir það eru öryrkjar hlutfallslega tvöfalt fleiri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Kerfisleg ástæða hlýtur að einhverju leyti að liggja hér að baki í þeim kerfum sem sett hafa verið upp til að meta örorku og til þess að aðstoða öryrkja við að fá bót meina sinna.

Tæplega 19 þús. manns eru með 75% örorkumat á Íslandi. Karlmönnum á aldrinum 20–24 ára með örorkumat hefur fjölgað um 37% á síðustu sjö árum. Þeim sem eru á örorku vegna geðraskana hefur fjölgað um rúm 13% á síðustu sex árum. Fjölgun örorkulífeyrisþega er engum í hag. Það er baráttumál Öryrkjabandalagsins að þær grunnstoðir í samfélaginu sem helst geta komið í veg fyrir örorku séu styrktar.

Það er mikilvægt að félagslega kerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið tali saman í þessum efnum.

Ungu fólki á örorku hefur fjölgað hlutfallslega mest í hópi öryrkja. Ungu fólki á aldrinum 20–24 ára sem þiggur örorku hefur fjölgað um 28% á síðustu sex árum. Á árinu 2016 var nýgengi örorku í fyrsta sinn meira en náttúruleg fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði. Sé litið til síðustu tíu ára voru 44% fleiri nýir öryrkjar árið 2016 en árið 2007. Það eru sláandi tölur.

Herra forseti. Þróun örorku á Íslandi er alvarleg og við verðum að taka hana alvarlega. Ríkisvaldið verður að leita ráða allra til þess að sporna við þeirri þróun. Það er alvarlegt að svo margir einstaklingar hverfi varanlega af vinnumarkaði vegna vandamála sem ættu í mörgum tilfellum að vera meðhöndlanleg. Það á ekki að letja fólk til atvinnuþátttöku, það á að (Forseti hringir.) beina sjónum að því hvað fólk getur gert og efla styrkleika þess. Skerðing atvinnutekna um krónu á móti krónu gengur þvert á þau mikilvægu markmið.