149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna og heyrist á þeim sem hér hafa talað að nokkuð mikil samstaða sé um að við þurfum að tryggja öryrkjum mannsæmandi kjör. Það á ekki að vera eitthvert náttúrulögmál að það að vera öryrki jafngildi því að vera dæmdur til fátæktar fyrir lífstíð. Af því að fátækt hefur ofan á allt annað gríðarlega neikvæð áhrif á þau lífsgæði sem fólk hefur og hvað það getur leyft sér. Við höfum kannanir sem sýna að tekjulágir eru líklegri til að neita sér um heilbrigðisþjónustu en aðrir. Í neðstu tekjubilunum neita rúm 17% sér um læknisþjónustu, tæpur þriðjungur um tannlæknaþjónustu og um 45% neita sér um geðheilbrigðisþjónustu vegna fátæktar.

Hér skiptir máli að við stefnum í átt að gjaldfrelsi í heilbrigðismálum þar sem hægt er og byggjum ekki upp tvöfalt kerfi þar sem fólk með peninga getur keypt sig fram fyrir, heldur eflum opinbert heilbrigðiskerfi sem stendur öllum aðgengilegt.

Mig langar að nefna stöðu öryrkja sem fjölskyldufólks, sem foreldra, sem einstaklinga í samfélaginu, sem vilja sjá börnin sín blómstra og dafna. Þá aftur erum við með kerfi sem við þurfum að standa vörð um og efla. Við þurfum að tryggja börnum gjaldfrjálsa menntun, ókeypis skólamáltíðir og við þurfum að styrkja kerfi eins og frístundakortið til þess að kostnaðurinn standi ekki í veg fyrir því að börn öryrkja og annars tekjulágs fólks geti tekið þátt í því sjálfsagða starfi sem í boði er.

Síðan þurfum við að víkka þetta aðeins út, víkka út þá hugsun að við séum að styðja tekjulága til að taka þátt í því allra nauðsynlegasta. Öryrkjar fá í dag afslátt þegar (Forseti hringir.) þeir sækja söfn og aðra menningarviðburði, en börnin þeirra ekki alltaf. Þannig (Forseti hringir.) er ókeypis á listasöfn í Reykjavík fyrir börn, (Forseti hringir.) en til að geta farið í sund eða Húsdýragarðinn eða leikhúsin, þarf að borga. Þetta þurfum við að skoða; (Forseti hringir.) hvernig við getum stutt (Forseti hringir.) fólk til að taka þátt í menningunni (Forseti hringir.) með börnunum sínum. (Forseti hringir.) Til þess að (Forseti hringir.) geta lifað með reisn þarf fólk (Forseti hringir.) nefnilega ekki bara (Forseti hringir.)(Forseti hringir.) geta veitt sér (Forseti hringir.) það allra lífsnauðsynlegasta (Forseti hringir.) heldur líka (Forseti hringir.) allt hitt. (Forseti hringir.) Þannig getum við tekið fullan þátt í samfélaginu.

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill minna þingmenn á ræðutíma. Þetta voru 39 sekúndur fram yfir tveggja mínútna ræðu.)