149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa komið upp og rætt málið og ráðherra einnig. Það slær mig að ráðherra segir að hann viti eiginlega ekki hvernig eigi að leiðrétta krónu á móti krónu skerðinguna afturvirkt til 2017. Ég hef ekki vitað til þess að það stæði í neinum að leiðrétta afturvirkt laun þingmanna. Það hefur ekki staðið í neinum yfir höfuð að leiðrétta laun afturvirkt hjá öllum öðrum en öryrkjum, en það er auðvitað svo rosalega flókið hjá þeim að það er vonlaust.

Ég vil benda á að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir úr Vinstri grænum kom upp og benti á að þetta væri lágmark, sérstaka framfærsluuppbótin ætti að tryggja að enginn færi niður fyrir ákveðna framfærslu.

Þegar þeir settu þetta á, Vinstri grænir og Samfylkingin árið 2009, settu þeir inn allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, bílastyrki, lyfjastyrki, súrefnisstyrki, allt það skerðir. Hvernig í ósköpunum á fárveikt fólk að verja sig þegar það heldur að það sé að fá lágmarksframfærslu en svo er hún skert kerfisbundið? Svona vinnubrögð eru ekki líðandi.

Svo er það starfsgetumatið. Af hverju segið þið ekki bara við öryrkja, við alla: Farið að vinna, finnið vinnu? Hvar er vinnan? Hversu margir öryrkjar bíða eftir vinnu hjá Vinnumálastofnun og fá ekki vinnu? Getur ráðherra svarað því? Hvaða vinnu á fólk að fá? Hversu margir öryrkjar eru í endurhæfingu hjá VIRK? Hvernig er staða þeirra sem eru með geðsjúkdóma þar? Við skulum átta okkur á því að öryrkjum fjölgar, prósentuhlutfallið hækkar. Þetta er vitleysa. Ríkið framleiðir öryrkja með því að sjá ekki til þess að fólk fái sálfræðiþjónustu. Börn og aðrir flosna upp úr skóla. Þetta er vandamál framtíðarinnar, fjölgun öryrkja, og það er ríkið sem býr þá til. Það vill enginn vera öryrki.