samgönguáætlun 2019--2033.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afbragðs ræðu. Ég er sammála honum um að auðvitað er eðlilegt að samgönguáætlun sé í samræmi við ríkisfjármálaáætlun. Ég hef skilning á því að hv. þingmaður skoði það mál sérstaklega enda er hann formaður hv. fjárlaganefndar þingsins.
Í umræðum hér um samgönguáætlun hefur nokkuð verið rætt um að ef við ætlum að komast hraðar í þær framkvæmdir sem eru svo nauðsynlegar verðum við að skoða aðrar leiðir. Ég heyrði að hv. þingmaður opnaði á þann möguleika að skoða leiðir eins og samvinnuleið eða PPP-fjárfestingaleiðir, sem dregur úr áhættu ríkisins. Það eykur skilvirkni við framkvæmdir að einkaaðilar komi að og eins við nýtum þá fjármuni betur sem eru í boði með þeim hætti, þeir eru þá ekki teknir beint úr ríkissjóði.
Mig langar aðeins að spyrja nánar út í hvort hv. þingmaður sjái flöt á því að þær hugmyndir um veggjöld sem komið hafa fram í umræðunni falli einhvern veginn inn að því. Hvernig sér það hann fyrir sér?
Mig langar líka til að spyrja hann út í það sem bæði ég og aðrir hv. þingmenn hafa verið að hreyfa við, þ.e. hvort möguleiki sé á því að skoða aðeins nánar efnahagsreikning ríkissjóðs, skoða allt það fjármagn sem ríkið er með bundið í ýmsum eignum, hlutabréfum eða stofnfé hvers konar, og athuga hvort því fé sé öllu skynsamlega varið, hvort möguleiki sé á og tækifæri til að laga þar eitthvað aðeins til, skoða það nánar og færa til fjármagn sem nýtist í uppbyggingu á mikilvægum og arðbærum samgöngumannvirkjum.