149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:10]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Hv. þingmaður heldur áfram að tala um hókus pókus-leiðir sínar til að eignast banka á silfurfati og raka inn peningum þar. Ég hef ekki enn þá séð hvernig þær áætlanir eiga ganga upp og skaffa okkur þá peninga. Þess vegna spyr ég: Hvernig leggur hv. þingmaður til að við mætum þeim kröfum sem eru í samfélaginu um auknar samgönguframkvæmdir, um meira fjármagn til samgöngumála, til viðbótar við þá samgönguáætlun sem við erum með núna? Hvernig sér hann það fyrir sér? Finnst honum það óábyrgt og upphlaup að koma með tillögur í þá átt? Finnst hv. þingmanni óábyrgt að stjórnmálamenn komi með aðrar tillögur til að auka fjármagn í samgöngumál til viðbótar því sem við ræðum? Hverjar eru hugmyndir hans um það?

Svo talar hann um að 1/3 af því sem við innheimtum af vegamálum fari í samgöngumál … (Gripið fram í: Fari ekki …) — fari ekki í samgöngumál. Ég held hann ætti að kynna sér hlutina. Allir þeir fjármunir sem hafa verið innheimtir og sérmerktir samgöngumálum fara þangað og rúmlega það. Það er kannski rétt að ekki öll almenn gjöld sem eru innheimt til samgöngumála fari í þau en slík gjöld fara í að reka stofnanir í kringum samgöngukerfið, bráðadeildir, löggæslu, Samgöngustofu og fleira slíkt. Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér staðreyndir mála áður en hann fer að halda slíku fram. Ég kalla eftir því að þingmaðurinn svari því hvernig hann sér fyrir sér að gengið geti hratt og örugglega að auka við þann framkvæmdahraða sem við ræðum í áætlununum hér. Þetta er það fjármagn sem hefur tekist að forgangsraða og það er aukið fjármagn. Það er töluvert meira fjármagn í þeim samgönguáætlunum sem við ræðum en hefur verið undanfarin ár. Hvernig ætlar hann að gera enn betur?