149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:15]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fimm ára samgönguáætlun, aðgerðaáætlun til ársins 2023. Aðgerðaáætlunin er í samræmi við ramma fjármálaáætlunar fyrir þessi ár, 2019–2023, eða með öðrum orðum: Hún er fullfjármögnuð og það er mikil framför. Þessa aðgerðaáætlun ræðum við samhliða samgönguáætlun fyrir næstu 15 árin, til 2033. Þar er stefna í samgöngumálum sett og helstu markmið sem vinna skal að. Hún tekur mið af annarri stefnumörkun stjórnvalda og er samþætt við ýmsa stefnumörkun, svo sem byggðaáætlun, og í henni er fjallað um fjáröflun til samgöngumála.

Eins og ég hef áður sagt úr þessum ræðustól hafa samgöngur áhrif á alla. Þær eru stærsta byggðamálið en eru jafnframt heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál, menningarmál og svo mætti áfram telja. Bættar samgöngur eru því áhugamál margra og hér ætla ég aðeins að koma inn á örfá atriði í þessum áætlunum og örfá mikilvæg atriði kannski sem þar eru ekki.

Ég er að mörgu leyti mjög ánægð með þessa samgönguáætlun en á sama tíma veldur það áhyggjum hvað við eigum eftir að vinna mikið upp í viðhaldi alls vegakerfisins og raunar annarra samgöngumannvirkja. Þess vegna komumst við hægar af stað í nýframkvæmdir en vilji er til og sem hrópandi þörf er fyrir um land allt. Gleymum því samt aldrei að við verðum að halda því við sem búið er að byggja upp, annars sóum við verðmætum.

Þess vegna er viðbótarfjármagnið sem fór í viðhald vega á þessu ári ótrúlega mikilvægt og í áætluninni er lagt til að 10 milljörðum verði árlega varið til viðhalds vegakerfisins næstu fimm árin og heldur meiru eftir það. Ég er ánægð með að samgönguáætlun er raunhæft plagg um framkvæmdir sem hægt er að ráðast í á næstu árum og með henni fáum við mikilvægan fyrirsjáanleika. Það eru ekki byggðar upp óraunhæfar væntingar þó að í aðgerðaáætlun næstu fimm ára séu meiri fjármunir til viðhalds og framkvæmda en nokkru sinni áður.

Í samgönguáætlun er áfram lögð áhersla á að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi þó svo að þeir uppfylli ekki kröfur um burðarþol og veglínu. Þetta er afskaplega mikilvægt fyrir strjálbýlið og getur umbylt lífsgæðum fjölda barna um land allt sem eiga leið um þessa vegi daglega á leið til skóla, leikskóla eða til að sækja tómstundir. Þetta er líka grunnur að tækifærum til atvinnusköpunar og þar með hagsældar í samfélaginu öllu. Vonandi tekst líka að koma í veg fyrir að býli þar sem stunduð er matvælaframleiðsla séu í stöðugum rykmekki heilu sumrin frá malarvegum. Gleymum því ekki að enn þá eru malarvegirnir lengri en vegirnir með bundnu slitlagi.

Almenningssamgöngur eru mikilvægt verkefni sem hafa mikla þýðingu. Þær hafa áhrif á lífsgæði íbúa og vel skipulagðar almenningssamgöngur eru liður í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og fleira mætti nefna. Það má segja að í almenningssamgöngum hafi farið fram mikilvæg tilraun um land allt á síðustu árum. Sumt hefur gengið vel en annað illa. Af þeirri reynslu verðum við að læra. Mér finnst ljóst að það þarf heildarsýn fyrir allt landið en það þarf líka að byggja upp í samræmi við sérstöðu hvers svæðis. Hér verða því ríki og sveitarfélög að vinna saman til að fá meira fyrir sama fjármagn og er verið að verja til verkefnisins í dag og nýta þá viðbót sem lögð er til í áætluninni. Við getum ekki haldið áfram með þetta verkefni í boxum sem koma í veg fyrir skilvirkni. Með síðustu breytingu var ætlunin að komast úr boxum sérleyfanna en við lentum inn í öðrum. Það verður líka að horfa á almenningssamgöngur í heild, ferjur og flug og fólksflutningabíla, og tengja netið í þéttbýli og dreifbýli. Það getur verið skynsamlegt að flug séu almenningssamgöngutengingin við einstaka staði en flugið verður þá líka að tengjast öðru leiðakerfi. Enn eru ekki almenningssamgöngur hringinn um landið, reynum að fylla upp í gatið í almenningssamgöngunum eins og það er að takast að fylla í ómalbikaða gatið á hringveginum í Berufjarðarbotni.

Þessu tengt er mikilvægt að draga fram að samgönguáætlun miðar við að Reykjavíkurflugvöllur gegni áfram núverandi hlutverki á meðan ekki finnst jafn góður eða betri flugvallarkostur sem getur tekið við hlutverki hans. Það verður líka að tengja flugvöllinn öðrum almenningssamgöngum strax.

Í samgönguáætlun er aukin áhersla á vegþjónustu, svo sem hálkuvörn og snjómokstur. Það er vel því að á snjóþyngri svæðum er kallað eftir nýrri hugsun í snjómokstri sem tekur mið af breyttri samfélagsgerð í strjálbýli þar sem hluti heimilisfólks þarf að leggja af stað að heiman fyrir kl. átta að morgni alla daga, en skipulag moksturs miðast sums staðar enn við að aðeins sé opnað einhvern tímann yfir daginn. Þá hafa þarfir ferðaþjónustunnar einnig breytt þjónustuþörfinni jafnt á fjölförnum sem fáfarnari vegum.

Öll verkefni á áætlun skiptir máli fyrir nærumhverfi og stuðla um leið að auknum tækifærum fyrir samfélagið í heild. Meðal verkefna eru endurnýjun margra gamalla stórra einbreiðra brúa sem kannski má líkja við tifandi tímasprengjur í vegakerfinu. Það á að ljúka við Dettifossveg sem skapar tækifæri og nýjar undirstöður fyrir uppbyggingu á Norðausturhorninu. Þar skapast tækifæri fyrir nokkrar nýjar hringtengdar ferðaleiðir sem geta lyft ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi á nýjan stað. Norðausturhorninu tilheyra hátt í 10% alls landsins, þar eru Dettifoss, Ásbyrgi, Melrakkasléttuhringurinn og margar fleiri perlur. Í Bárðardalsvegi vestari verður unnið allt áætlunartímabilið en hann er tengingin við Sprengisandsleið sem er einn af fjórum stofnvegum á miðhálendinu. Það leiðir af því að enginn stofnvegur á miðhálendinu er norðan Vatnajökuls en þessir vegir eru og verða enn frekar grunnur að vernd og atvinnusköpun tengdri þjóðgörðum eða vernduðum svæðum miðhálendisins.

Að lokum ætla ég að horfa til þess landshluta þar sem ég bý, Austurlands. Lokið verður við Borgarfjarðarveg á næstu fimm árum, það eru alls 28 kílómetrar. Borgarfjörður er nú eini þéttbýlisstaðurinn sem ekki er hægt að sækja heim án þess að fara um malarveg. Þetta er vegur sem bæði þjónar mörgum ferðamönnum og íbúum á Borgarfirði og sveitunum sem vegurinn liggur um. Borgfirðingar voru að mörgu leyti á undan sinni samtíð í uppbyggingu ferðaþjónustu og því fara þar um hundruð bíla daglega yfir sumartímann. Starfsmenn dekkjaverkstæða á Austurlandi spyrja gjarnan þá sem þar koma hversu oft þeir keyri Borgarfjarðarveginn því þeir vita að þar þarf dekk sem þola mikið álag.

Það eru fleiri mikilvæg verk á áætlun á Austurlandi en langt í verklok. Stærstu verkefnin eru vegur um Öxi, Seyðisfjarðargöng, ný Lagarfljótsbrú og vegur um Suðurfirði þar sem nú eru m.a. fjórar hættulegar einbreiðar brýr í fjarðarbotnum og óuppbyggður mjór vegkafli. Allt mjög áríðandi verkefni sem þétta samfélagið og auka öryggi.

Ég tel að lélegar samgöngur hafi valdið því að Austurland hefur á ýmsan hátt minnkað á síðustu áratugum. Þar á ég við brotthvarf Hornfirðinga til Suðurlands og Bakkfirðinga til Norðurlands. Austurland má ekki minnka meira og raunar væri best að það stækkaði aftur. Ætli það gæti ekki verið hagkvæmara fyrir margar rekstrareiningar ríkisins á fjórðungsvísu og þjóðarbúið í heild? Tækifæri til samfélagsþróunar og samkeppnishæfni þessa landshluta byggir á betri samgöngum. Nýting mannauðsins og náttúrulegra auðlinda væri miklu betri ef það væri styttra á milli byggðarlaga og byggðin þannig í raun þéttari. Sem betur fer eru íbúar Austurlands snillingar í að nýta tæknina til samstarfs. Ég hef samt fullan skilning á því að það valdi áhyggjum að ekki sjái í verklok framkvæmda sem stytta vegalengdir og stækka atvinnusvæði fyrr en eftir 10–15 ár. Þetta segir mér eitt: Við verðum með einhverjum hætti að verja hærra hlutfalli þjóðarframleiðslu til samgöngumála en við gerum núna.

Í þessari umræðu hefur meiri hluti ræðumanna rætt um aðrar fjármögnunarleiðir og ég styð samvinnuleið í fjármögnun. Ágætu þingmenn, förum samt ekki langt fram úr okkur. Sígandi lukka er best. Við náum aldrei að leysa öll samgönguverkefnin samtímis, í því er engin skynsemi. Hættum að vekja óraunhæfar væntingar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur boðað frumvarp til laga um gjaldtöku og framtíðarfjármögnun vegakerfisins. Ég mun jafnframt beita mér fyrir því að umhverfis- og samgöngunefnd ræði þessi mál í (Forseti hringir.)umfjöllun um samgönguáætlun og skoði hvaða verkefni væru vel fallin sem samvinnuverkefni í framhaldinu.(Forseti hringir.)

Ágætu þingmenn. Tökum samt bara eitt skref í einu.