149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

um fundarstjórn.

[16:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Svo að því sé haldið til haga var ég stödd á öðrum fundi fastanefndar Alþingis en sendi varamann í minn stað sem var viðstaddur þennan fund og óskaði eftir því að ekki yrði byrjað á fundinum, sem haldinn var í flýti eins og um væri að ræða þvílíkt flýtimeðferðarmál hér í þinginu að enginn tími mætti fara til spillis. Hann óskaði eftir því að það yrði beðið stundarkorn svo að nefndarmenn gætu hlýtt á hæstv. ráðherra kynna þau mál sem eru að koma inn í nefndina til meðferðar. (Gripið fram í.) Það eru hér tvö mál á dagskrá. Annað þeirra á að fara til umhverfis- og samgöngunefndar. Meira að segja er það þannig að í fundarboði, þar sem er talað um að funda eftir þingfund, stendur á dagskránni að við séum að fara að fjalla um það mál sem átti eftir að mæla fyrir eftir samgönguáætlun. (Forseti hringir.) Við getum alveg sleppt því að vera að æsa okkur hérna yfir því að það sé ekki góð samvinna. Við óskuðum (Forseti hringir.) eftir örstuttri bið svo að við gætum fengið að hlusta á það (Forseti hringir.) sem fram fer hér til að við gætum ástundað fagleg vinnubrögð og farið eftir þingskapalögum. Getum við beðið um smá virðingu fyrir þingskapalögum, hv. þingmaður?