149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

dómur um innflutning á hráu kjöti.

[15:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það má í raun segja að 13. gr. EES-samningsins, sem hér hefur verið nefnd, sem er ætluð til að vernda búfé og lýðheilsu, hafi í raun verið felld úr gildi með dómi Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins.

Auðvitað getur það ekki gerst með þeim hætti. Það verður að gerast við samningaborð. Það verður að gerast í samningum við Evrópusambandið. Þá spyr ég: Ætlar ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra að taka málið upp? Ég held að mjög mikilvægt sé að gera það.

Ég vil líka víkja að öðru í þessu sambandi: Hvaða kröfur verða gerðar til innlendra framleiðenda ef niðurstaðan verður sú að hér mun flæða inn hrátt kjöt? Nú hef ég t.d. áreiðanlegar heimildir fyrir því að í Evrópusambandinu er einungis skimað fyrir tveimur tegundum af salmonellu í alifuglum en hér á landi er skimað fyrir öllum eða mun fleiri tegundum. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Verða gerðar meiri kröfur hvað varðar innlenda framleiðslu en erlendar afurðir?